Ofbeldi gegn börnum

Miðvikudaginn 12. nóvember 2003, kl. 15:45:37 (1562)

2003-11-12 15:45:37# 130. lþ. 26.8 fundur 274. mál: #A ofbeldi gegn börnum# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 130. lþ.

[15:45]

Dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason):

Virðulegi forseti. Spurt er: Hefur dómsmrh. orðið við ítrekuðum óskum umboðsmanns barna um að gerð verði ítarleg rannsókn á heimilisofbeldi gegn börnum?

Svarið við þessari spurningu er já. Hinn 25. apríl sl. var umboðsmanni barna veittur 500 þús. kr. fjárstyrkur til að standa að því verkefni. Verkefnið er unnið af vísindamönnum, þeim Geir Gunnlaugssyni, yfirlækni á Miðstöð heilsuverndar barna í Reykjavík, og Jónínu Einarsdóttur mannfræðingi sem standa að verkefninu en ætla að hefja það á þann veg að fá sérfræðing til að vinna sérstaka skýrslu, skriflega samantekt af rannsóknum og skrifuðum heimildum, þar með töldum sögulegum, um ofbeldi gegn börnum á Íslandi. Markmiðið er að niðurstaða þeirrar vinnu muni leggja grunn að umfangsmeiri rannsóknum um heimilisofbeldi gegn börnum á Íslandi og munu þau sækja eftir styrk frá Rannsóknaráði ríkisins á komandi hausti, þ.e. nú á þessu hausti, til frekari vinnu um málaflokkinn. Óskað var eftir því að veittur yrði 500 þús. kr. styrkur til að vinna þessa forvinnu og tilkynnt að áformað væri að ráða Sesselju Ólafsdóttur til verksins en hún hefur meistaraprófsgráðu í mannfræði frá Kaupmannahafnarháskóla.

Eins og sagði var þessi styrkur veittur hinn 25. apríl sl. og kemur fram í þeim gögnum sem ég hef undir höndum um þetta mál að búist hafði verið við því að forrannsókn lyki hinn 30. júní sl. Ég hef ekki séð niðurstöður rannsóknarinnar. En svarið við þessum spurningum er sem sagt á þann veg að veitt hefur verið fé til rannsóknarinnar og hafist hefur verið handa við hana og áform eru uppi um að halda henni áfram.

Þegar ég lít á þetta mál sé ég að það sem hefur að sjálfsögðu skort til að unnt væri að hrinda þessu í framkvæmd er að vísindamenn sýndu málinu áhuga, því ekki rannsakar dóms- og kirkjumrn. mál af þessum toga. En þarna hefur tekist samstarf af hálfu umboðsmanns barna við þessa vísindamenn um að vinna verkið og ráðuneytið hefur veitt til þess styrk svo það gæti hafist, og síðan er ætlunin að fá styrki úr rannsóknarsjóðum til þess að vinna verkið. Ég sé því ekki betur en þetta verk sé komið á rekspöl.