Úthlutun fjár til kynningar- og markaðsmála í ferðaþjónustu

Miðvikudaginn 12. nóvember 2003, kl. 18:20:59 (1577)

2003-11-12 18:20:59# 130. lþ. 26.12 fundur 219. mál: #A úthlutun fjár til kynningar- og markaðsmála í ferðaþjónustu# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 130. lþ.

[18:20]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Hann segir að hann muni ekki gera meginbreytingar á reglunum sem voru í fyrra. Það er bara orðalag hvort maður talar um samstarf eða útboð. Það er auðvitað verið að bjóða út fé. Það er nánast verið að veita styrki, krónu á móti krónu, eins og gert var í fyrra, og verið að bjóða ákveðnum fyrirtækjum að koma inn í það starf. Ég tel það mjög mikilvægt að reglurnar verði þannig að við opnum fyrir fleirum, það verði fleiri sem geta komið inn í þetta.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Hefur hann skoðað það hvort þessi aðferðafræði, króna á móti krónu, hafi í raun og veru skilað meiri peningum til markaðsstarfsins? Við vitum að mörg fyrirtæki eyða miklum fjármunum af veltu sinni, stórum hluta, í markaðsstarf og kynningarstarf, jafnvel meiri hluta en t.d. Flugleiðir. Eru þessi fyrirtæki að spara eitthvað af peningunum sínum með því að fá krónu á móti krónu frá hinu opinbera? Hefur það verið skoðað? Ég tel að það þyrfti að skoða það og tel að reglurnar þurfi að vera þannig að þær taki til fjárveitinga sem fara til almennra kynninga og markaðsverkefna sem hvetji til Íslandsferða.

Ég vil í lokin fagna því að það á að fara í markaðsstarf í Japan og Austurlöndum, því þar tel ég að við eigum mjög mikið óunnið af markaði sem við getum fengið til okkar, því við vitum að bæði Kínverjar og Japanar eru mjög ferðaglaðir og alltaf að kanna nýja staði, ég tel það því mikilvægt að fá þá hingað sem ferðamenn. En vil hvetja hæstv. ráðherra til að opna þessar reglur fyrir fleiri fyrirtækjum eins og ég nefndi í fyrri ræðu minni.