Úthlutun fjár til kynningar- og markaðsmála í ferðaþjónustu

Miðvikudaginn 12. nóvember 2003, kl. 18:23:13 (1578)

2003-11-12 18:23:13# 130. lþ. 26.12 fundur 219. mál: #A úthlutun fjár til kynningar- og markaðsmála í ferðaþjónustu# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 130. lþ.

[18:23]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Virðulegi forseti. Ég vil undirstrika það að þetta er mjög opið, við erum ekki út af fyrir sig að opna fyrir fleiri fyrirtækjum, við erum að opna þetta á þann hátt að þetta er auglýst og fyrirtækjum er gefinn kostur á því að leggja fram ákveðna fjármuni gegn sömu upphæð frá ríkinu. Ég tel að þessi leið sé mjög gegnsæ og eigi að geta skapað traust á milli aðila.

En aðalatriðið er, eins og ég gat um fyrr, að það náist árangur. Ég held að þetta hafi skilað mjög miklu og það sé fjarri því að fyrirtækin hafi dregið úr auglýsingafjármunum sínum eða kynningarfjármunum, heldur sé þetta hrein viðbót. Það er a.m.k. mat þeirra sem næst þessu standa, sem er afar mikilvægt.

Við getum ekki farið í bókhald fyrirtækjanna í ferðaþjónustunni og kannað það, en markaðssérfræðingarnir vita nokk hvað verið er að nota í kynningu og þeirra mat er að þetta sé nánast hrein viðbót.

Ég vil nota þetta tækifæri og segja það að fyrir íslenska ferðaþjónustu er náttúrlega algerlega ómetanlegt á kynningarmarkaði erlendis hversu öflugt, bæði í Norður-Ameríku og Evrópu, hið íslenska flugfélag, Flugleiðir, er. Þeir leggja þvílíka fjármuni sem nýtist hverjum einasta ferðaþjónustuaðila í landinu, beint og óbeint. Það er auðvitað hinn stóri styrkur okkar að við skulum hafa svo feiknarlega öflugt fyrirtæki eins og Flugleiðir eru á þessum markaði og hafa ár frá ári aukið sína starfsemi. (ÁRJ: Sammála ráðherra.)