Fjarskiptasamband

Miðvikudaginn 12. nóvember 2003, kl. 18:25:37 (1579)

2003-11-12 18:25:37# 130. lþ. 26.10 fundur 196. mál: #A fjarskiptasamband# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 130. lþ.

[18:25]

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason):

Virðulegi forseti. Ég legg fsp. fyrir hæstv. samgrh. um fjarskiptasamband. Í fyrsta lagi: Hvenær má ætla að komið verði gott GSM-fjarskiptasamband á leiðinni um Norðurárdal úr Skagafirði yfir Öxnadalsheiði til Akureyrar? Í öðru lagi: Hvenær verður komið á góðu fjarskiptasambandi á veginum yfir Þverárfjall, þ.e. frá Húnavatnssýslu og yfir Þverárfjall til Sauðárkróks?

Það er nú svo að mikil umferð er á báðum þessum fjallvegum. Á veginum yfir Þverárfjall, sem er þegar kominn í notkun og mikil umferð um, er staðan sú að á meginhluta leiðarinnar er ekkert fjarskiptasamband, hvorki GSM-fjarskiptasamband né NMT-fjarskiptasamband. Staðan er meira að segja sú að lögreglan getur ekkert frekar náð sambandi ef eitthvað skyldi þar út af bera. Þetta er algerlega óviðunandi öryggisleysi og stórhættulegt. Það má einnig benda á skíðasvæði Skagfirðinga sem er rétt fyrir ofan Sauðárkrók, þar er heldur ekkert fjarskiptasamband.

Yfir Öxnadalsheiðina, alveg frá því komið er fram í Skagafjörð, er ekkert GSM-fjarskiptasamband þar til komið er langt niður í Öxnadalinn.

Ég er hér með bréf sem yfirlögregluþjónninn á Sauðárkróki sendi Landssíma Íslands hf. 25. febrúar 2002. Þar er rakið mjög alvarlegt dæmi sem kom upp á Öxnadalsheiði einmitt vegna þess að þar er ekkert fjarskiptasamband og lá þar við stórslysi sem og oft áður.

Það er alveg ljóst að fjarskiptasamband á vegum, sérstaklega á fjölförnum fjallvegum, er eitt mikilvægasta öryggistæki til að þessar samgöngur séu virkar. Því leyfi ég mér að spyrja hæstv. samgrh.: Hvenær verður komið á gott og öruggt fjarskiptakerfi, annars vegar á Öxnadalsheiði og hins vegar á veginum yfir Þverárfjall?