Fjarskiptasamband

Miðvikudaginn 12. nóvember 2003, kl. 18:33:14 (1581)

2003-11-12 18:33:14# 130. lþ. 26.10 fundur 196. mál: #A fjarskiptasamband# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 130. lþ.

[18:33]

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég verð fyrst að segja að það er mjög dapurt að þetta símafyrirtæki, Landssíminn, sem er að langmestum hluta í eigu þjóðarinnar, og ráðherra hefur visst þjónustulegt boðvald yfir, skuli ekki efla þessa þjónustu úti um land. Það var dapurlegt að heyra í fréttum í dag að hann leggur meiri áherslu nú á að fara til Búlgaríu og styrkja fjarskiptaþjónustu þar heldur en að taka á fjarskiptamálum hér innan lands. Mér finnst það bara lýsandi fyrir þá forgangsröðun sem þar er í gangi og dapurlegt að svo skuli vera.

Ég fagna í sjálfu sér því sem ráðherra lýsti yfir, að það ætti að gera tilraun á Öxnadalsheiði með einhverja aðra tegund fjarskiptabúnaðar til þess að koma á fjarskiptasambandi þar. Hins vegar verð ég að segja það hér, virðulegi forseti, að ég er algerlega andvígur því að við ætlum að taka einn rekstraraðilann enn inn í fjarskiptakerfi landsins hvað þetta varðar. Vegagerðin hefur skyldum að gegna við þjónustu vegakerfisins en við höfum Landssímann sem ber meginskyldur varðandi fjarskiptaþjónustuna og það er ekkert of mikið þó að einmitt séu lagðar kvaðir á hann við að byggja upp þessa fjarskiptaþjónustu. Ég er reyndar þeirrar skoðunar, virðulegi forseti, að GSM-fjarskiptaþjónustan eigi að vera lögboðinn hluti af öryggisneti landsins og eigi að vinna þannig að henni. Auðvitað kostar það peninga en það er líka mikilvægt að þetta komist upp til þess að tryggja sem best öryggi.

Ég vil aftur draga fram stöðuna á Þverárfjalli sem nú verður mikil umferð yfir. Þar er bara hreint ekkert fjarskiptasamband, hvorki með NMT- né GSM-síma, og það er alveg óviðunandi, virðulegi forseti. Ég skora á hæstv. ráðherra að beita sér til úrbóta hvað það varðar.