Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 13. nóvember 2003, kl. 11:08:00 (1584)

2003-11-13 11:08:00# 130. lþ. 27.1 fundur 142#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 130. lþ.

[11:08]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Hæstv. utanrrh. er nýlega kominn frá Afríku og ég býð hann velkominn úr þeirri miklu för. Ef hæstv. utanrrh. hefur farið nógu norðarlega kann að vera að hann hafi séð þar á ferðalögum sínum sérkennilega fuglategund sem lifir á jaðri eyðimarka. Hún er þekkt um víða veröld fyrir þá sérkennilegu háttsemi sína að ef hún sér eitthvað sem er óþægilegt eða hún hræðist, þá stingur hún höfðinu í sandinn. Þá líður strútnum miklu betur því að heimurinn lítur svo miklu betur út fyrir honum ofan í sandgryfjunni heldur en uppi, í raunveruleikanum sem við hin lifum og hrærumst í.

Herra forseti. Þessi nálgun og þessi aðferð strútsins finnst mér lýsa best nálgun hæstv. utanrrh. gagnvart þeim vandamálum sem blasa við í utanríkismálum líðandi dags. Hæstv. ráðherra hefur valið þann kost að stinga höfðinu í sandinn og lætur eins og það séu engin vandamál. Það er auðvitað þess vegna sem hann þarf ekkert að minnast á í ræðu sinni að það eru vandamál á sviði utanríkismála sem við hin sjáum og verðum að glíma við í þeim veruleika sem bersýnilega er ekki uppi í utanrrn. Hæstv. utanrrh. sér ekki Írak, hann sér ekki Evrópu og fyrir honum eru engin vandamál sem blasa við á sviði öryggis- og varnarmála. Um þessi mikilvægu mál er ekki að finna eitt einasta orð í ræðu hæstv. ráðherra sem tók þó hartnær 35 mínútur í flutningi. Hæstv. utanrrh. hefur ekkert að segja þeim hundruðum manna sem standa frammi fyrir mikilli óvissu um starf sitt og afkomu í tengslum við varnarliðið. Það eru heldur engin merki þess að það séu einungis örfáir dagar síðan Íslendingar stóðu frammi fyrir miklum vanda varðandi staðfestingu EES-samningsins sem afhjúpaði alvarlega veikleika á þeim samningi. Um það var ekki að finna orð í ræðu hæstv. ráðherra og heldur engir lærdómar dregnir af því máli fyrir framtíðina, enda Evrópumálin að sjálfsögðu allt of viðkvæm til þess að á það sé hættandi að ræða þau þegar einhver úr ríkisstjórninni er nálægt.

Hæstv. utanrrh. hefur greinilega enga sýn á hvað Íslendingum er fyrir bestu varðandi Evrópusambandið. Ég held að þessi ræða hljóti að vera hámarkið á þeim hringlandahætti sem hefur einkennt stefnu Framsóknarflokksins varðandi Evrópu síðustu missiri. Ræða hæstv. ráðherra virðist nefnilega vera skrifuð á sama stað og þar sem strútnum líður best, í umróti daganna, ofan í sandgryfjunni í eyðimörkinni

Herra forseti. Ég hef ekki legið á því, í umræðum síðustu ára um utanríkismál, að hrósa hæstv. ráðherra þegar hann hefur flutt hér ræður sem stundum hafa tekið með skörulegum hætti á vandamálum líðandi dags. En ég verð að segja að þó að oft hafi lapið verið þunnt þá hefur vatnsgrauturinn aldrei verið jafnþunnur og er borinn fyrir okkur í þessari skýrslu.

Í skýrslunni er fyrst og fremst rætt um eitt mál, framboð Íslendinga til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Það er greinilegt að það framboð á að vera sá bautasteinn sem á að lifa eftir þegar tönn tímans tekur að naga í kringum feril hæstv. utanrrh. og hann er fluttur í annað ból. Þannig ætlar hæstv. utanrrh. að freista þess að menn gleymi þeim miklu og afdrifaríku mistökum sem honum hafa orðið á, varðandi mál eins og Írak, sem mun hvað sem hann segir og hvað sem hann gerir, vera það sem lifir eftir ráðherratíð hans í utanrrn. Svo alvarleg voru þau mistök.

Herra forseti. Það er hins vegar sjálfsagt að ræða vandlega málflutning hæstv. ráðherra um framboð Íslendinga til öryggisráðsins. Hann stenst nefnilega ekki að öllu leyti. Inn í málflutninginn vantar að varpa ljósi á það samhengi sem umsóknin óhjákvæmilega er í varðandi önnur atriði utanríkismálastefnu ríkisstjórnarinnar, ekki síst afstöðu hennar til öryggisráðsins og virðingarleysisins sem hæstv. ríkisstjórn, sér í lagi hæstv. utanrrh., sýndi ráðinu þegar Íraksdeilan stóð sem hæst. Ég ætla að geyma mér, herra forseti, að fjalla um það þangað til ég kem að þætti Íraks síðar í minni ræðu. Ég ætla að leyfa mér þann munað, af því að ég hef ekki oft tekið til máls um það atriði, að ræða það til nokkurrar hlítar.

Fyrst er hins vegar nauðsynlegt að kafa aðeins ofan í, það sem ég hef kallað, ósamkvæmni milli ræðu hæstv. utanrrh. og ýmissa annarra yfirlýsinga hans, sér í lagi varðandi tengsl framboðsins við framlög okkar til þróunarhjálpar.

Hv. þingmenn sem sitja í þessum sal muna efalaust allir eftir ákaflega athyglisverðri ræðu sem forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson, hélt við þingsetninguna fyrr í haust. Forseti vor reifaði þar framboð Íslands til öryggisráðsins og leyfði sér að vísa til fræðimanns sem starfað hafði við Friðarháskóla Sameinuðu þjóðanna og hafði skoðað framlög okkar til þróunarhjálpar. Niðurstaða fræðimannsins var sú að ef kæmi til atkvæðagreiðslu um framboð okkar til öryggisráðsins væri líklegt að heldur smásálarleg framlög okkar til þróunarhjálpar gætu veikt stöðu okkar. Í kjölfarið sagði forseti Íslands, með leyfi hæstv. forseta:

,,Hvernig sem það veltur er ljóst að með auknum ábyrgðarstörfum á alþjóðavelli, innan Alþjóðabankans, Sameinuðu þjóðanna og víðar mun þessi sérstaða Íslands meðal frændþjóðanna á Norðurlöndum og ríkjanna í Evrópu vestanverðri verða í æ ríkari mæli talin okkur til álitshnekkis.``

Þarna talaði forseti Íslands, fyrrv. prófessor í stjórnmálafræði og einn af þeim Íslendingum sem gerst þekkir til á alþjóðavettvangi. Hann var augljóslega þeirrar skoðunar að nánasarháttur Íslendinga varðandi þróunarhjálp gæti skaðað framboð okkar til öryggisráðsins og taldi það okkur til álitshnekkis. Samfylkingin var og er algerlega sammála orðum forseta Íslands og hver einasti sendiherra sem þorir að tala um þetta mál er það líka.

En hvernig brást hæstv. ráðherra við þessum augljósu sannindum? Hann fór í ákaflega sérkennilegan leiðangur gegn forseta Íslands í öllum helstu fjölmiðlum landsins daginn eftir. Með leyfi forseta, sagði hæstv. ráðherra í RÚV: ,,Við þurfum ekki að styðja þróunarlöndin til þess að komast í öryggisráðið.`` Í ríkissjónvarpinu sagði hæstv. ráðherra: ,,Þetta eru algerlega aðskilin mál að mínu mati og mér finnst ekki vera rétt að blanda þeim saman.`` Á Stöð 2 sagði hæstv. ráðherra: ,,Við blöndum þessum málum ekki saman. Ég er andvígur því að vera að blanda þessum málum saman.``

[11:15]

Herra forseti. Ég man ekki eftir nokkrum stjórnmálamanni sem fór með þessum hætti í alla fjölmiðla landsins til þess að atast í því sem herra forseti Íslands hafði sagt. Það hefur enginn gert áður, ekki einu sinni hæstv. forsrh. sem kallar þó ekki allt ömmu sína þegar kemur að því að tjá sig með litríkum hætti.

En, herra forseti, batnandi manni er best að lifa. Það sem hæstv. utanrrh. sagði í fýlukasti sínu þann dag er löngu horfið, það er gleymt. Þeir sem hafa ráðlagt hæstv. ráðherra hafa bent honum á að það sem forseti Íslands sagði á þeim degi var hárrétt. Í ræðunni sem við vorum að hlusta á hérna rétt áðan var hæstv. utanrrh. algjörlega búinn að skipta um skoðun. Ræðu hæstv. ráðherra var ekki hægt að skilja öðruvísi en svo að nú sé það skoðun utanrrn. að ein helsta von Íslendinga til þess að ná árangri með framboði sínu sé að breyta um kúrs varðandi þróunarhjálp og stórauka hana. Og það er auðvitað hárrétt alveg eins og forseti Íslands sagði á sínum tíma.

Það má svo sem spyrja: Hvað er það sem olli því að hæstv. ráðherra hefur séð ljósið í þessum málum? Samfylkingin hefði gaman af því að heyra hvað það var sem olli því að hann skipti um skoðun í þessu. Auðvitað er það þannig að þetta tvennt er nátengt. Það er einfaldlega þannig að varðandi framboð okkar til öryggisráðsins verður það ekki bara orðstír Íslendinga meðal vina og frændþjóða á Norðurlöndum og í Vestur-Evrópu sem mun skipta sköpum um framboð okkar. Við eigum nú þegar hauka í þeim hornum. Það sem mun skipta máli er auðvitað atkvæði þeirra þjóða sem er að finna í Afríku og í Asíu og þar verðum við vegin fyrst og fremst eftir tvennu. Í fyrsta lagi hversu vel við höfum staðið okkur í því að deila auðlegð okkar með þeim sem eru skemmra komin á brautinni til bjargálna og svo hins vegar eftir sjálfstæðri utanríkisstefnu. Það eru 30 ár síðan þetta þing batt í lög þá stefnumótun að framlög okkar til þróunarhjálpar skyldu vera 0,7% af landsframleiðslu. Það var í samræmi við samþykktir allsherjarþingsins. Í dag er þjóðin, sem hæstv. ráðherra lýsti réttilega í sinni ræðu sem auðugri smáþjóð og taldi það eina af röksemdunum fyrir því að við ættum að sitja í öryggisráðinu, einungis að verja u.þ.b. fjórðungi af þessu hlutfalli til þróunarmála.

Hæstv. ráðherra sagði margt ágætt í ræðu sinni og m.a. sagði hann orðrétt: ,,Það er engin dyggð fólgin í því að hlaupast frá því að greiða sanngjarnan hlut af sameiginlegum reikningi.`` En það er nákvæmlega það sem Íslendingar hafa gert, ekki síst undir forustu núv. ríkisstjórnar. Þó vil ég taka það fram að heldur hefur nú lagast staðan í þessum málum á síðustu árum.

Ég sakna þess svo, herra forseti, að í ræðu sinni minntist ráðherrann ekki á það hvað framboð okkar til öryggisráðsins mundi kosta. Hann sagði hins vegar að við þingmenn, þingflokkar, stjórnin og jafnvel stjórnarandstaðan ætti að gegna ríku hlutverki, stóru hlutverki við að undirbúa þetta. En ég spyr, herra forseti: Hvað á þetta að kosta? Hafa menn ekki haft fyrir því að leggja mat á það? Samfylkingin óskar eftir því, ef kostur er, að hæstv. ráðherra svari því í dag.

Herra forseti. Svartasti bletturinn á ferli þessarar ríkisstjórnar er Íraksmálið og ég sakna þess að hæstv. ráðherra skuli ekki reifa hvaða áhrif hann telur að afstaða ríkisstjórnarinnar í því máli kunni að hafa á framboð okkar til öryggisráðsins. Telur hæstv. utanrrh. virkilega að sú afstaða skipti engu máli? Auðvitað skiptir hún máli. Ég tel að hæstv. utanrrh. muni aldrei geta með sæmilegu móti varið þá ákvörðun að teyma okkur Íslendinga nauðuga til fylgilags við Bandaríkjamenn í Írak. Það var niðurlæging fyrir Íslendinga þegar hann, án lögboðins samráðs við Alþingi og án nokkurs samráðs við þingheim, batt þjóðina eins og afsláttarhross aftan í lest hinna 30 svokölluðu viljugu þjóða. Þeirra þjóða sem tóku siðferðilegan þátt í því að ráðast inn í Írak án þess að þora að bera það mál undir öryggisráð Sameinuðu þjóðanna sem hæstv. utanrrh. talar svo fjálglega um í dag. Herra forseti. Þetta er ekkert annað en hræsni sem felst í þessari afstöðu.

Ég verð að segja það, herra forseti, að mér finnst það söguleg kaldhæðni að við skulum núna vera að ræða utanríkismál á grundvelli skýrslu sem fjallar bara um það eitt að komast í þetta sama ráð og hæstv. ráðherra taldi fullkomlega eðlilegt að hunsa þegar kom að einni mikilvægustu ákvörðun sem alþjóðasamfélagið hefur komið að á síðustu áratugum, því það var satt að segja, eins og hér hefur komið fram í ræðu minni, varla orð um annað en öryggisráðið í skýrslu hæstv. ráðherra. Ég spyr auðvitað þegar maður horfir á þennan tvískinnung, ja, þá kemur upp spurningin: Hvers konar pólitík er þetta? Hvers konar pólitík er það að byrja á því að gefa fullkomið frat í öryggisráðið, koma fram gagnvart því af fullkomnu virðingarleysi og lýsa í reynd yfir með afstöðu Íslendinga að öryggisráðið skipti ekki máli þegar kemur að stærstu og erfiðustu ákvörðun á alþjóðavettvangi? Svo komum við Íslendingar núna og viljum leggja allt í sölurnar til þess að komast að þessu innsta borði vegna þess, eins og hæstv. ráðherra var að enda við að segja: Þar á að taka hinar mikilvægu ákvarðanir. En ekki þegar Bandaríkjamönnum líkar það illa eða þeim þjóðum sem fylgispakastar eru þeim í utanríkismálum.

Ég verð að segja það, herra forseti, að þetta er einhver sérkennilegasta aðferð til þess að lýsa og kynna sjálfstæða utanríkisstefnu gagnvart umheiminum því það sem fyrst og síðast mun ráða afdrifum okkar þegar kemur til kosninga um framboð okkar er mat annarra þjóða á því hversu sjálfstæð utanríkisstefna Íslendinga er. Og í Íraksmálinu birtist það öllum heiminum.

Það gleður mig hins vegar, herra forseti, að hæstv. ráðherra er orðinn bókmenntalega sinnaður og hann er farinn að vitna í nóbelsskáldið til þess að styðja umsókn okkar í öryggisráðið. Mér fannst þó kannski svolítið óheppilegt af hæstv. ráðherra að vísa til orða gamla Bjarts í Sumarhúsum um gagnsemina af fyrri heimsstyrjöldinni í því sambandi. Hæstv. ráðherra las kannski ekki alveg nógu langt í þeim texta, hefði hann gert það hefði hann komist að því að það var nú einmitt sú styrjöld sem eyðilagði beitarhúsamýrina fyrir Bjarti. Og það skyldi þó ekki vera að styrjöldin sem hæstv. ráðherra lét okkur styðja í Írak verði til þess að eyðileggja fyrir okkur þegar kemur að kosningu í öryggisráðið og Írak verði þá kannski mýrin sem þessi bautasteinn hæstv. ráðherra sekkur á bólakaf ofan í?

Nei, herra forseti, fyrst hæstv. ráðherra var á annað borð að vitna í Laxness þá hefði hann kannski átt að lesa Gerplu og vísa í þau orð búandkarls eftir veislu í hvalþvesti þegar hann var að velta fyrir sér áhrifum átaka og styrjalda og komst að þeirri niðurstöðu að í stríði mundu þeir einir niður fara sem trúa á stálið. Og það getur hæstv. utanrrh. séð best á atburðarásinni sem síðan hefur orðið í Írak.

Ég verð að segja það líka, herra forseti, að á dauða mínum átti ég von frekar en því að ríkisstjórnin og hæstv. utanrrh. gengju á bak allra þeirra orða sem hæstv. ráðherra hafði í aðdraganda ákvörðunar sinnar um hinn siðferðilega stuðning sem hann veitti fyrir hönd vopnlausrar þjóðar við innrásina í Írak. Það er óhjákvæmilegt að rifja það upp að hæstv. ráðherra hafði ekki einu sinni heldur mörgum sinnum sagt að hann teldi rétt að veita vopnaeftirlitsmönnum Sameinuðu þjóðanna meiri tíma til að grennslast fyrir um tilvist gereyðingarvopna áður en gripið yrði til hervalds gegn Írak. Hann sagði þetta ekki einu sinni, hann sagði það mörgum sinnum. En hæstv. ráðherra stóð ekki við þau orð, hann gekk á bak þeirra.

Hæstv. ráðherra hefur aldrei skýrt hvað olli sinnaskiptum sínum og mér finnst kominn tími til að hann geri það. Var málið kannski það að hæstv. utanrrh. kiknaði í hnjánum þegar formaður Sjálfstfl. tók af honum völdin varðandi stuðninginn við Írak? Því það er nefnilega þannig sem það hefur svo oft verið í tíð þessarar ríkisstjórnar að þegar kemur að stóru málunum í utanríkispólitík Íslendinga þá hefur Sjálfstfl. farið sínu fram. Við sáum það í Írak og við höfum líka séð það mörgum sinnum varðandi Evrópumálin. Og það get ég sagt herra forseta að ákvörðunin um Írak er sú ákvörðun sem allir sem sátu þá á þingi munu beisklegast gráta og aldrei gleyma. Það fennir í öll spor og tíminn græðir öll sár og sagan birtir oft réttlætingu á ákvörðunum sem er erfitt að réttlæta í samtímanum. Það er hins vegar skoðun mín og Samfylkingarinnar að í tilviki Íraksstríðsins séu bæði sagan og tíminn að sýna það sífellt betur og betur að ákvörðun ríkisstjórnarinnar átti sér enga réttlætingu, og það sýnir vaxandi óöld, óöryggi og réttleysi almennra borgara í Írak í dag. Við sjáum auðvitað ekki nema bara hluta af þeirri dökku mynd sem blasir við þegar bakhliðin á stöðu almennra borgara í Írak er skoðuð. Við lesum fréttir af sorglegu mannfalli hermanna þeirra erlendu liða sem sitja í Írak og vissulega er samúð okkar með fjölskyldum þeirra sem munu aldrei jafna sig á því áfalli sem felst í því að missa föður, móður, son eða dóttur. En við sjáum bara það sem erlendum miðlum finnst fréttnæmt. Það er ekki nema örsjaldan í fréttatímum þeirra og þar með okkar sem glyttir t.d. í þá skelfilegu þróun sem hefur orðið á hlutskipti kvenna í Írak. Hvers kyns ofbeldi í þeirra garð, misþyrmingar og nauðganir eru svo algengar í því skelfilega stjórnleysi sem ríkir í Írak í kjölfar innrásarinnar að líf þeirra er martröð. En við sem búum á Vesturlöndum fáum aldrei að heyra af þessu. Þetta þykir varla fréttnæmt. En þetta er hluti af því sem ég ber ábyrgð á, siðferðilega, óbeina ábyrgð á sem Íslendingur vegna þess að mín þjóð veitti siðferðilega blessun yfir þessa innrás. Mér þykir það sárt.

Hver var réttlætingin sem færð var fyrir þessu? Það voru gereyðingarvopnin. En þau finnast hvergi í dag. Það er komið í ljós að stoðirnar undir staðhæfingunum um tilvist þeirra voru að stórum hluta ýkjur, staðlausir stafir. Í dag, hálfu ári eftir að stríðinu lauk og eftir saumnálarleit um allt Írak, finnst hvorki af þeim tangur né tetur. Robin Cook, sem sagði af sér úr bresku ríkisstjórninni vegna þessa máls, hafði aðgang að þeim sömu leyndarskjölum sem Bush og Blair höfðu aðgang að og hann hefur sagt að það hafi ekki verið vottur af vísbendingu um að það væru einhver gereyðingarvopn í Írak önnur en þau sem framleidd voru af verksmiðjum sem Bretar settu upp fyrir 20 árum.

Hver er þá réttlætingin í dag? Hún er helst sú, heyrir maður hjá forustumönnum ríkisstjórnarinnar, að það hefðu getað verið gereyðingarvopn og það var þess vegna í lagi, herra forseti, að Íslendingar studdu árásarstríð á Írak. ,,Guði sé lof það var bara arsenik.`` Þannig hljóðaði frægt skeyti í einni af bókum skáldsins sem hæstv. ráðherra vitnaði til í ræðu sinni, ég held að það hafi verið Guðsgjafarþula. Og það var stjórn kvenfélagasambands bjórbindindiskvenna vestan Helkunduheiðar sem sendi það merka skeyti til ritstjóra Norðurhjarans á Djúpvík. Herra forseti. Þeir hafa ekki einu sinni fundið arsenik í Írak.