Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 13. nóvember 2003, kl. 11:30:27 (1586)

2003-11-13 11:30:27# 130. lþ. 27.1 fundur 142#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 130. lþ.

[11:30]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. utanrrh. lýsti því margoft yfir að gefa ætti vopnaeftirlitsmönnum Sameinuðu þjóðanna meiri tíma til að leita af sér allan grun. Hann gekk á bak þeirra orða sinna. Hann hefur aldrei upplýst af hverju það gerðist. Var það vegna þess að Sjálfstfl. kúgaði hann? Var það vegna þess að hæstv. forsrh., sem hafði alveg skelegga og þekkta skoðun á málinu, skrúfaði niður í því? Ég veit það ekki, herra forseti. En eitt veit ég að hæstv. utanrrh. átti þátt í því að taka af mér minn lögboðna rétt sem alþingismaður til að fá að fjalla um málið. Þetta er mesta og erfiðasta utanríkismálið sem nokkru sinni hefur skolað á fjörur þingsins og hæstv. utanrrh. hafði ekki samráð við þingið. Hann hafði ekki samráð við utanrmn. þingsins um þetta mál. Við getum síðan deilt um hvernig staðan er núna. Við getum deilt um hvernig á að taka á málinu.

Ég er þeirrar skoðunar að ábyrgð okkar sé svo mikil á því sem hefur gerst í Írak að við eigum að verja miklu meira fé til uppbyggingar þar en við höfum gert nú þegar. Ég er líka þeirrar skoðunar að staðan eins og hún er komin upp í Írak sé svo alvarleg að það sé ákaflega erfitt fyrir okkur sem stjórnmálamenn og þá stjórnmálamenn sem báru ábyrgð á þessari ákvörðun að horfast í augu við það.

Ég fór aðeins með lítinn passus af því sem hægt er að lesa á jöðrum miðlanna, hinna erlendu miðla um stöðu kvenna í Írak. Staða kvenna í Írak er einfaldlega þannig að þær þora tæpast út af því að engin löggæsla er á strætum úti og það er ég, Íslendingurinn, sem með óbeinum hætti ber ábyrgð á því. Auðvitað svíður mann undan slíku. En það er einfaldlega þannig. Ég held að hæstv. ríkisstjórn ætti að sjá sóma sinn í því að taka þetta mál að eigin frumkvæði til umræðu á þinginu því að með einhverjum hætti þurfa menn að gera þetta upp.