Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 13. nóvember 2003, kl. 11:32:36 (1587)

2003-11-13 11:32:36# 130. lþ. 27.1 fundur 142#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 130. lþ.

[11:32]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er afskaplega sérkennilegt hvernig hv. þm. Össur Skarphéðinsson nálgast mál. Hann nálgast skoðanamyndun með þeim hætti að hún eigi sér helst stað með því að menn séu píndir og plagaðir. Er hv. þm. að vitna eitthvað til eigin reynslu í þessu sambandi? Hann kemur vart í ræðustól án þess að tala um að skoðanamyndun utanrrh. fari þannig fram að einhver sé að pína hann og plaga. Ég get fullvissað hv. þm. um það að svo er alls ekki. Ég er alveg fullfær um að mynda mínar eigin skoðanir á málum og fylgja þeim eftir og hef gert það.

Ég hef þá skoðun að nauðsynlegt hafi verið að koma Saddam Hussein frá. Ég er þeirrar skoðunar að ekki hafi verið hægt að bíða lengur. Það hefði verið æskilegt að gefa vopnaeftirlitsmönnum lengri tíma. Ég hef ekkert breytt um skoðun í því sambandi en ekki reyndist unnt að gera það. En ég er eindregið þeirrar skoðunar að nauðsynlegt hafi verið að koma Saddam Hussein frá.

Mér finnst það afskaplega merkilegt að formaður Samf. nefnir aldrei einu orði öll þau grimmdarverk sem þar voru unnin. Og það sem nú er að gerast í Írak er afskaplega sorglegt, öll þau hermdarverk sem þar eiga sér stað. En við verðum að vinna að friði í því landi. Við verðum að koma þar á friði og við verðum að koma því til leiðar að sú þjóð geti tekið sín mál í eigin hendur og ég trúi því að það muni takast. En það er alveg ljóst að það hefði aldrei tekist nema einræðisherranum, glæpamanninum Saddam Hussein væri komið frá. Og hv. þm. mætti í gagnrýni sinni bera líka umhyggju fyrir öllu því fólki sem féll fyrir grimmdarhendi hans.