Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 13. nóvember 2003, kl. 12:21:59 (1593)

2003-11-13 12:21:59# 130. lþ. 27.1 fundur 142#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 130. lþ.

[12:21]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Fyrst um landfræðilega einangrun og tengsl Íslands við einhvers konar einangrunarhyggju. Mér finnst að vísu mjög sérkennilega að orði komist í lok ræðu hæstv. ráðherra þar sem segir að landfræðileg eða menningarleg einangrun skapi einungis falskt öryggi og sé ekki raunhæfur valkostur í breytilegum heimi hnattvæðingar. Ég er algerlega sammála hinu síðarnefnda. Menningarleg einangrun er argasta tímaskekkja á öllum tímum, enda hefur að mínu mati Ísland aldrei haft tilhneigingar til menningarlegrar einangrunarhyggju.

Landfræðileg lega lands er hins vegar efnisleg staðreynd. Það er ekki einhver valkostur. Við erum hér úti í miðju Atlantshafinu, hæstv. utanrrh., sem ég þykist vita að ráðherra viti manna best því að hann flýgur oft yfir álana og veit hvað þeir eru langir. Þessu tvennu verða menn að halda aðgreindu. Landfræðileg lega lands getur áfram verið breyta sem menn taka tillit til og er staðreynd í sjálfu sér. Auðvitað breytast kringumstæðurnar eitthvað, samgöngurnar og vopnin þróast eða hvað það nú er sem við erum að hugsa um í því og því samhengi en áfram markar hin landfræðilega lega Íslands með ýmsum hætti aðstæður okkar. Tökum t.d. málefni flóttamanna, hælisumsóknir, landamæravandamál og annað í þeim dúr sem er í allt öðru samhengi á Íslandi en þegar maður kemur til meginlands Evrópu.

Varðandi þetta með heimildir öryggisráðsins skil ég út af fyrir sig hvernig hæstv. utanrrh. reynir að bjarga sér í land með þessum efnum. Hann segist enn vera þeirrar skoðunar að æskilegt hefði verið að vopnaeftirlitið hefði fengið meiri tíma og að æskilegt hefði verið að öryggisráðið hefði samþykkt sérstaka ályktun. En það bara var ekki þannig og það er eins og hæstv. utanrrh. hafi ákveðið að hverfa til stuðnings við það að hvorugt af þessu gengi eftir. Hvorugt varð í marsmánuði, hvorki að vopnaeftirlitsmenn fengju meiri tíma né að öryggisráðið samþykkti nýja ályktun. Og það eru þau sinnaskipti utanrrh. sem við höfum aldrei fengið neinar skýringar á.