Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 13. nóvember 2003, kl. 12:28:57 (1596)

2003-11-13 12:28:57# 130. lþ. 27.1 fundur 142#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), GAK
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 130. lþ.

[12:28]

Guðjón A. Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Þegar við ræðum utanríkismál verður eigi um málið fjallað án þess að lagt sé út af fréttum, erlendum sem innlendum, ásamt stefnu stjórnvalda eins og hún kemur okkur fyrir sjónir sem erum í stjórnarandstöðu og síðan auðvitað skýrslu utanrrh. sem hér var flutt í ræðu í morgun.

Í Morgunblaðinu í gær í leiðara sem bar heitið Fáránleiki verndartolla var fjallað um Heimsviðskiptastofnunina, WTO, sem ætlað er það hlutverk að styrkja fríverslun milli ríkja og tryggja að ríki smá en þó einkum stór misnoti ekki sterka stöðu sína í viðskiptum gegn þeim smærri eða þá lágverðsvörur frá þróunarlöndum eða markaðssvæðum eins og t.d. Kína þar sem kaupið er lágt. Í niðurlagi leiðara segir svo, með leyfi forseta:

,,Við stöndum á mikilvægum tímamótum í milliríkjaviðskiptum. Á næstu missirum mun ráðast hvort hægt verði að viðhalda því aukna frelsi sem hefur verið að þróast, neytendum um allan heim til hagsbóta. Reglur WTO eru ekki síst öryggisnet fyrir smærri ríki er hafa ekki burði til að efna til viðskiptastríðs við risana í alþjóðaviðskiptum á borð við Evrópusambandið, Bandaríkin og Japan ef brotið er á þeim. Allir eru jafnir gagnvart reglum WTO.

Það er hins vegar margt sem bendir til að þetta kerfi kunni að vera í hættu. Í fyrsta lagi er það forsenda þessa skipulags að forysturíki á borð við Bandaríkin virði þá samninga sem gerðir hafa verið og hlíti úrskurðum WTO. Í öðru lagi er hætta á að sérhagsmunir kunni að koma í veg fyrir frekari samninga. Doha-viðræðunum hefur nánast verið siglt í strand þar sem hin auðugu ríki Vesturlanda hafa ekki treyst sér til að koma til móts við sjálfsagðar kröfur þróunarríkja, t.d. í landbúnaðarmálum. Þá er hætta á stórfelldu viðskiptastríði milli ESB og Bandaríkjanna ef raunin verður sú að grípa verður til verndartolla. Vonandi verða það verndartollarnir er að lokum bíða skipbrot en ekki alþjóðleg milliríkjaviðskipti.``

[12:30]

Hæstv. utanrrh. segir í ræðu sinni, með leyfi forseta, á bls. 15:

,,Besta leiðin til að bæta hag þróunarríkja, sem og annarra ríkja, er að tryggja frelsi í alþjóðlegum viðskiptum ...``

Á öðrum stað segir, með leyfi forseta:

,,Ísland er í hópi þeirra ríkja sem leggja áherslu á að ná heildstæðu samkomulagi, enda eru hagsmunir jafnt smærri ríkja og þróunarríkja best tryggðir með þeim hætti.``

Virðulegi forseti. Í ljósi þess sem áður er vitnað til í niðurlagi leiðara Morgunblaðsins frá því í gær og í ljósi þeirra áherslna sem hæstv. ráðherra lýsir í ræðu sinni þá er spurt hvert mat hæstv. utanrrh. leggi á þá stöðu sem uppi er þegar forusturíki eins og Bandaríkin virða ekki samninga og beita ólöglegum tollverndarmúrum. Hvert er álit hæstv. utanrrh. á því að í uppsiglingu sé viðskiptastríð milli Bandaríkjanna og Evrópusambandsins? Hvernig mun Ísland tengjast inn í slíkt viðskiptaástand og deilur vegna EES-samningsins ef ESB beitir heimild til refsitolla? Þetta eru áleitnar spurningar.

Má líta svo á, eins og vikið er að í ræðunni, að nú sé ekki bara steytt á skeri um hagsmuni þróunarríkja og smærri ríkja, heldur sé fram undan varanlegt strand og skipbrot til lengri tíma, hæstv. utanrrh.?

Í Morgunblaðsleiðaranum frá í gær er einnig sagt, með leyfi forseta:

,,Þær raddir gerast nú æ háværari í Bandaríkjunum að grípa verði til aðgerða vegna hins mikla viðskiptahalla gagnvart Kína. Því er haldið fram að störf séu í miklum mæli að færast úr bandarískum iðnaði til Kína. Það gleymist hins vegar að bandarískir neytendur eru orðnir háðir ódýrum, kínverskum varningi. Hvernig myndu þeir bregðast við ef verð á fjölmörgum sjálfsögðum neysluvörum myndi hækka stórlega vegna tolla er hefðu það eitt að markmiði að vernda þrönga sérhagsmuni?``

Í ljósi þessara orða er spurt: Er það svo að þegar Kína vaknar til viðskipta og samkeppni þá fari Vesturlönd að skjálfa? Var ekki einhvern tíma sagt af vísum manni: ,,Látið Kína sofa því að þegar Kína vaknar mun heimurinn nötra``?

Eru þeir tímar núna, virðulegi forseti? Það er fróðlegt að koma til Kína og sjá þá þróun, þá hröðu þróun sem þar er í þjóðfélaginu hjá fjölmennasta ríki veraldar.

Þessi umfjöllun vekur upp þær spurningar sem ég hef hér spurt og ég vona að hæstv. utanrrh. svari í einhverju í máli sínu þegar honum gefst tækifæri til.

Miðvikudaginn 5. nóvember sl. bar hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon fram fyrirspurn í Alþingi til utanrrh. um hernað Bandaríkjamanna, Breta, Íslendinga og fleiri þjóða á hendur Írökum.

Þá sagði utanrrh., með leyfi forseta, orðrétt:

,,Að vandlega íhuguðu máli tók ríkisstjórnin þá ákvörðun að lýsa yfir stuðningi við innrás Bandaríkjanna og Bretlands í Írak.``

Nauðsynlegt er að minna hæstv. utanrrh. á þá staðreynd að þegar formenn stjórnarflokkanna voru að íhuga málið vandlega sáu þeir ekki einu sinni ástæðu til að bera málið undir utanrmn.

Í því sambandi vil ég vísa til 24. gr. þingskapa Alþingis þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Utanríkismálanefnd skal vera ríkisstjórninni til ráðuneytis um meiri háttar utanríkismál enda skal ríkisstjórnin ávallt bera undir hana slík mál jafnt á þingtíma sem í þinghléum.``

Ákvörðun um hernaðarþátttöku Íslands hlýtur að falla undir þessa grein þingskapa enda meiri háttar breyting á utanríkispólitík og ein stærsta ákvörðun sem tekin hefur verið í utanríkismálum í sögu íslenska lýðveldisins. Áratugum saman hafði sú ákvörðun Íslands staðið óhögguð að fara aldrei með hernað á hendur öðrum þjóðum. Að ganga fram hjá utanrmn. í þessu máli er brot á þingsköpum Alþingis, hvernig sem á málið er litið.

Hæstv. utanrrh. talar síðan um í ræðu sinni að við höfum lagt áherslu á framlag til friðargæslu og uppbyggingar á stríðshrjáðum svæðum.

Með stuðningi við stríðið í Írak tókum við nú þátt í að koma upp slíkum svæðum. Þetta er því orðið sannkallað öfugmæli. Hins vegar er það rétt sem hæstv. utanrrh. nefndi, þegar hann talaði um að Ísland hefði sérstaka stöðu sem smærra ríki með góð tengsl við helstu áhrifavalda í heiminum. Því miður er það m.a. með því að Ísland var sett á listann yfir hina staðföstu sem studdu innrásina í Írak. Svo er talað um þau góðu tengsl sem ríkisstjórnin náði. Þau voru sannarlega dýru verði keypt.

Hæstv. utanrrh. segir að í þeirri vinnu sem fram undan er vegna framboðsins verði haft náið og vaxandi samráð við utanrmn. Alþingis. Guð láti gott á vita, en betur að það hefði verið gert fyrr þegar ákveðið var að styðja stríðsátökin í Írak.

Þann 6. nóvember. sl. afhenti Eiður Guðnason, sendiherra Íslands í Kína, Kim Yong Nam, forseta forsætisnefndar norður-kóreska þjóðþingsins, trúnaðarbréf sitt sem sendiherra Íslands í Norður-Kóreu með aðsetur í Peking.

Í skýrslu utanrrh. vantar svarið við eftirfarandi spurningu: Hvaða hugsanlegu hagsmunir kunna að liggja í því að opna stjórnmálatengsl við ríki sem þessa dagana notar kjarnorkuvopnaþróun til að knýja á um efnahagsaðstoð? Er það gert til þess að sendiherra Íslands geti, eins og hæstv. utanrrh. gat um í ræðu sinni, komið á framfæri sjónarmiðum Íslands varðandi gereyðingarvopn? Það er vandséð hvernig hægt er að réttlæta aukin stjórnmálatengsl við þetta ríki sem hótar að beita kjarnorkuvopnum meðan ráðist er inn í annað einmitt þess vegna, þó að þau vopn hafi ekki fundist. Og hvernig má það vera að þetta nýja samstarf okkar við Norður-Kóreu samræmist stefnu Sameinuðu þjóðanna varðandi afvopnunarmál og þá staðreynd, sem hæstv. utanrrh. benti sjálfur á í ræðu sinni á bls. 9, að hættan á útbreiðslu gereyðingarvopna sé eitt brýnasta verkefnið á sviði afvopnunar í heiminum?

Virðulegi forseti. Almenn útþensla utanríkisþjónustunnar hefur verið mjög mikil á undanförnum árum. Árið 1996 voru útgjöld utanrrn. 2 milljarðar kr. samkvæmt ríkisreikningi en voru orðin 5,5 milljarðar á síðasta ári. Aukningin á þessum sex árum er um 170% en vísitala neysluverðs hækkaði á sama tíma um 26%. Sendiráðum Íslands fjölgaði úr átta í fjórtán, stofnkostnaður við sendiráð Íslands í Japan var 700 milljónir. Árlegur rekstrarkostnaður er þar 100 milljónir.

Útgjöld til utanríkismála hafa hækkað verulega á undanförnum árum og sendiráðum hefur fjölgað. Samkvæmt nýjustu fréttum hafa viðskipti við Japan minnkað á þeim tíma sem liðinn er frá því að 700 millj. kr. var varið til að opna sendiráð sem þar að auki er með árlegan rekstrarkostnað upp á 100 millj. kr.

Menn halda því gjarnan fram að sendiráðin skipti sköpum varðandi útflutning okkar. Þessar tölur virðast hins vegar benda til annars. Það var rík ástæða til að gagnrýna stofnkostnaðinn við sendiráðið í Japan. Þá sögðu stjórnarliðar m.a. að það hefði borgað sig til lengri tíma að kaupa húsnæði frekar en leigja.

Virðulegi forseti. Þegar hæstv. utanrrh. talaði um áherslur Íslands og segir að samfélag þjóðanna verði að hafa refsiákvæði vegna þeirra hroðalegu mannréttindabrota sem hafa átt sér stað á undanförnum árum og hafa fyrst og fremst bitnað á óbreyttum borgurum, konum og börnum, ekki bara til að refsa fyrir þau brot sem drýgð hafa verið heldur einnig til að hafa varnaðaráhrif og koma þeim skilaboðum skýrt á framfæri að refsileysi slíkra brota heyri sögunni til, þá segjum við í Frjálsl. fl.: Við lýsum yfir stuðningi við þessi viðhorf og stefnu stjórnvalda hvað það varðar. Við viljum árétta að við teljum að þátttaka Íslands í hernaðinum gegn Írak hafi verið algjört stílbrot á þessari stefnu.

Virðulegi forseti. Í Morgunblaðinu í gær er haft eftir hæstv. utanrrh. um framtíð EES-samningsins að sambandið, þ.e. Evrópusambandið, hafi lofað því að endurnýja EES-samninginn, að því verki loknu sem nú virðist hafa náðst, en að nú sé hljóðið í þeim, þ.e. ESB, farið að breytast og hann hafi nú minnkandi trú á að endurnýjunin verði að veruleika, og þannig verðum við að búa við samninginn eins og hann er.

Nú spyr sá sem ekki veit: Er það virkilega svo, virðulegi forseti Alþingis, að svona loforð séu hvergi skjalfest eða er þetta bara rætt svona manna á milli yfir kaffibolla og koníaki og gefin loforð út og suður sem sagt er frá hér uppi á Íslandi en eru í raun allt í plati og ekki mark á takandi? Hvernig eru þessi samskipti, hæstv. utanrrh.? Á að taka þetta alvarlega eða er þetta loforðasnakk markleysa ein og gapað upp í goluna engum til gagns?

Að lokum: Eru stórveldin ESB og Bandaríkin viðsjárverðir rauparar sem loforðum gleyma og skeyta engu um lög og heiður? Er það svo, virðulegi forseti? Svo má ráða af því sem haft er eftir utanrrh. í gær að þau loforð sem ESB hafi gefið séu einskis virði og á þeim sé ekki byggjandi.

Í lokaorðum í ræðu hæstv. utanrrh. segir m.a., með leyfi forseta:

,,Utanríkisþjónustan hefur verið efld á undanförnum árum og er nú betur í stakk búin til að takast á við svo umfangsmikið verkefni sem aðild að öryggisráðinu er.``

Síðan segir:

,, ...sendiráðin eru í raun alger forsenda þess að framboð okkar til öryggisráðsins sé mögulegt.``

Virðulegi forseti. Sú spurning vaknaði í huga þess sem hér stendur hvort það sé svo að útþenslan í utanríkisþjónustunni á undanförnum árum hafi markvisst verið til þess að byggja upp framboð okkar til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Er það svo, virðulegur forseti, að sá mikli kostnaður sem farið hefur í utanríkisþjónustuna á undanförnum árum --- og þá spyr maður einnig hver kostnaðurinn verði til framtíðar ef að þessu er stefnt --- að hér sé eingöngu verið að sækjast eftir þeim metnaði að komast inn í öryggisráðið og til þess séum við að fórna mörgum milljörðum króna? Er nema von að spurt sé miðað við það sem kom fram í lokaorðum ræðu hæstv. utanrrh.?

Ég verð að segja, virðulegi forseti, að mér finnst miklu til kostað að staðfestan í hernaði eigi ekki að verða að auðvaldsdraumi þjóðar okkar. Þá er ég ekki að leggjast gegn því að við tökum þátt í alþjóðlegu starfi, en hér finnst mér í gegnum ræðuna mega lesa þau skilaboð að miklu hafi verið til fórnað í langan tíma til að stefna til þess metnaðar sem við sækjumst eftir í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.