Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 13. nóvember 2003, kl. 12:47:13 (1599)

2003-11-13 12:47:13# 130. lþ. 27.1 fundur 142#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 130. lþ.

[12:47]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil benda á að rúmlega 60% mannkyns búa í Asíu. Þar eru vaxandi samskipti og stækkandi markaðir. Það er svo með skrifstofur ágætra fyrirtækja í Japan að stjórnendur þeirra fyrirtækja ráða þeim og hluthafarnir í þeim fyrirtækjum. Ég tel ekki rétt að slík fyrirtæki gæti hagsmuna íslensku þjóðarinnar. Það er fleira sem þarf að sinna í því sambandi. Japanskir ferðamenn koma hingað í vaxandi mæli og þeir eru aufúsugestir og mjög mikilvægir. Við verðum að líta á þessi mál í víðara samhengi.

Ég er ekki í nokkrum vafa um að það var rétt af Alþingi að álykta um að stofna bæri sendiráð í Japan. Ástæðan fyrir því að við byrjuðum á Kína var m.a. sú að hér hafði verið stofnað kínverskt sendiráð. Það var ódýrara að byrja í Kína. Í öllum umræðum um þetta mál á Alþingi síðasta áratuginn hafa menn verið sammála um að nauðsynlegt væri að setja á stofn sendiráð í Japan og það væri mjög mikilvægt að Japanir stofnuðu sendiráð hér, enda er Japan eitt af efnahagsveldum heimsins. Þar eru miklir möguleikar.

En svo er nauðsynlegt, hv. þm., að það komi fram að kostnaður við utanríkisþjónustuna, sem var rúmur milljarður árið 1996, þ.e. við þjónustuna sjálfa, var rúmir tveir milljarðar árið 2003. Kostnaður upp á þrjá milljarða er vegna friðargæslu, þróunarsamvinnu og lögreglustjóraembættisins á Keflavíkurflugvelli. Við höfum fjölgað sendiráðum á þessum tíma, það er rétt, en ekki er rétt að segja að kostnaðurinn við utanríkisþjónustuna sjálfa hafi hækkað um 170%. Ég bið hv. þm. að skoða stundum tölur áður en hann fer með þær.