Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 13. nóvember 2003, kl. 13:31:31 (1601)

2003-11-13 13:31:31# 130. lþ. 27.1 fundur 142#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), RG
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 130. lþ.

[13:31]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Það var svo sem auðvitað að strákarnir í þessari umræðu færu að kryfja Bjart í Sumarhúsum en ég legg það til að við séum ekki að bera saman Bjart í Sumarhúsum og Guðríði Þorbjarnardóttur. Það er eins og að bera saman hvítt og svart án þess að þar sé gert upp á milli beinlínis.

Svo ætla ég í upphafi máls míns, virðulegi forseti, að tjá hæstv. utanrrh. að Samf. styður sendiráðastarfsemi á Norðurlöndum hjá okkar nánustu nágrönnum, samstarfsaðilum og vinum svo það sé bara skýrt hér.

Svo að ég víki að ræðu utanrrh. er athyglisvert að sjá hvað hæstv. utanrrh. tekur stórt upp í sig með EES-samninginn, en í skýrslunni segir og í ræðu hæstv. ráðherra, með leyfi forseta:

,,EES-samningurinn hefur haft gífurleg áhrif á efnahagslega uppbyggingu á Íslandi og er einn af hornsteinum íslenska velferðarríkisins.``

Þá höfum við það. Og auðvitað velti ég fyrir mér hvort varaformaður Framsfl. viti þetta. Auðvitað er ég sammála þessari yfirlýsingu en öðruvísi mér áður brá. Það er mjög mikilvægt að Framsfl. sé svona meðvitaður um hvað gaf ríkisstjórninni sem hann settist í fyrir átta árum svo giftusamleg tækifæri því að oftast tala þingmenn flokksins eins og það hafi verið nóg að Framsfl. settist í ríkisstjórn, þá hafi eins og hendi hefði verið veifað opnast hin gullnu tækifæri, sjávarafli aukist, markaðir opnast, möguleikar nýrra tækifæra, fyrirtæki í hátækni og útflutningsframleiðslu orðið til o.s.frv. Það var EES-samningurinn sem skapaði ný tækifæri á nær öllum sviðum atvinnulífsins og það er gott.

Eitt annað, mjög mikilvægt samstarf sem menn tala lítið um og hefur kannski verið í uppsiglingu er norðurskautssamstarfið. Þar eru miklar áhyggjur af loftslags- og umhverfisbreytingum sem munu hafa mikil áhrif á lífið á norðurslóð, líf manna og dýra, og það eru vísbendingar um að breytingar sem eiga sér stað á norðurslóð á 10 ára tímabili taki 25 ár á öðrum stöðum á jörðinni. Þess vegna er hvort tveggja mikilvægt, rannsóknir á norðurslóð til að vita hvaða þróun verður á næstu 25 árum og líka að vita að það er svo ógnvænlega mikill hraði á breytingunum hjá okkur. En það eru fleiri ógnir sem steðja að, m.a. að örygginu á svæðinu.

Ég átti þess kost að hlusta á Karen Ericson, háskólaprófessor frá Alaska, á fundi í þessum samtökum nýverið en þar sagði hún að öryggi og öryggispólitík byggði fyrst og fremst á átaka- og ógnunarviðburðum og sú staða gerir það nær ókleift að gefa leiðsögn um raunverulegar ógnir nútímans í öryggismálum. Þetta er rétt. Þetta hefur verið staðfest af umræðunni hér á þessum morgni um utanríkismál. Hún segir að eftir lok kalda stríðsins snúist öryggi æ meira um umhverfismál. Hún segir að arfur kalda stríðsins sé geislavirkur úrgangur og leifar gereyðingarvopna í Norður-Rússlandi og þetta eigi eftir að valda okkur meiri ógn og skapa meiri hættu fyrir okkur en nokkur hugsanlegur stríðsrekstur. Því tek ég þetta inn í ræðu mína, hæstv. utanrrh., að við minnumst þess að ógnin er annað og meira en stríðsleikurinn sem við verðum vitni að úti í heimi.

Í umræðu sinni um öryggisráðið talar hæstv. utanrrh. um nauðsyn þess að vera þátttakandi í ákvarðanatöku. Þetta er grundvallaratriði í samstarfi, ekki bara taka við heldur hafa áhrif þar sem landið er í samstarfi. Sömuleiðis varðandi jafnræðið, að vera jafngildur. En þetta gildir ekki bara um öryggisráðið, þetta gildir um allt. Þess vegna eru löndin í Austur-Evrópu að sækja um aðild að Evrópusambandinu og þau eru að sækja um aðild að NATO til að vera með og vera jafngild. EES-samningurinn var mjög mikilvægur eins og ég hef hér nefnt. Þar erum við þó ekki með í ákvarðanatökunni. Hún fer fram í Evrópusambandinu og það er þess vegna, af því að við erum meðvituð um að við verðum að vera alls staðar með í ákvarðanatökunni til að hafa áhrif, sem Samf. vill ræða kosti og galla Evrópusambandsaðilar. Það er af því að við teljum brýnt að taka þátt í ákvörðunum sem varða hagi okkar. Ríkisstjórnin notar þetta, að taka þátt í ákvörðunum á alþjóðavettvangi, bara þar sem það passar henni, bara þar sem ríkisstjórnin vill vera með. Annað, það sem ekki næst samstaða um í ríkisstjórninni, að skoða þáttinn í alþjóðasamstarfinu, er sett til hliðar.

Virðulegi forseti. Á þessum morgni hefur verið mest rætt um öryggisráð og ég vil taka það sérstaklega fram að Samf. ætlast til mikils af setu Íslands í öryggisráðinu, verði sú raunin. Ísland á að sýna sjálfstæði í utanríkismálapólitík sinni, sýna engu landi þjónkun, ekki gera eins og Bandaríkin í stórmálum. Ég hlýt að vænta þess, og vísa þar til afstöðu minnar í upphafi míns máls um Norðurlöndin, okkar helstu nágranna- og vinaþjóða og helstu samstarfsaðila, að Ísland verði í ríkum mæli rödd Norðurlandanna þarna inni, fari í öryggisráðið með friðarstefnu. Ég trúi því nefnilega að það skipti máli að land eins og Ísland sé með þar sem fjallað er um átakamál og ég trúi því að það verði hlustað og ég trúi því að Ísland geti verið sáttasemjari og ég minni á að Norðurlöndin njóta virðingar hjá fjarlægum þjóðum. Þess vegna hafa menn eins og Ahtisaari, Stoltenberg, Bildt og Hans Blix verið sóttir til vandasamra verka á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Það er engin tilviljun. Það er vegna þess að í fjarlægum löndum þar sem menn eru fullir af tortryggni og vilja jafnvel takmarka aðkomu annarra að sínum málum bera þeir traust til Norðurlandanna og menn opna jafnvel landamæri sín og huga fyrir samvinnu við þau þó að þeir vilji ekki einhverja aðra. Við frá Norðurlöndunum erum fulltrúar landa þar sem ríkir lýðræði og virðing er borin fyrir minnihlutahópum.

Ég er líka mjög fylgjandi auknu samstarfi Norðurlandanna um friðargæslu eins og hæstv. ráðherra er kunnugt um. Ég er sannfærð um að norrænar liðssveitir geti náð öðruvísi árangri á viðkvæmum svæðum og á liðnum árum hefur verið mjög rætt um það í Norðurlandaráði að efla samvinnu í friðargæslu, byggja upp jafnvel sameiginlegar sveitir og auka sameiginlegar aðgerðir. Nordkapp hefur oft verið nefnt sem fyrirmynd í slíku samstarfi og aðild okkar að Nordkapp er núna orðið formleg sem hún var ekki áður. Við höfum talað um frekara formlegt samstarf, jafnvel að koma á hraðliði, og fleira hefur verið nefnt þarna. En þrátt fyrir að formlegra samstarf hafi enn ekki fengið hljómgrunn hjá ríkisstjórnum landanna hafa skoðanaskipti verið góð milli þingmanna á Norðurlöndum og ríkisstjórnanna og Norðurlandaráð ætlar að fylgja þróun mála á komandi missirum.

Það kom mér á óvart, virðulegi forseti, að sjá það í svari til hv. þm. Þórunnar Sveinbjarnardóttur að friðargæslan er í svo ríkum mæli metin sem þróunaraðstoð samkvæmt þróunarnefnd OECD. Ég velti þá fyrir mér hvar mörkin liggi milli friðargæslu og átakastjórnunar. Ég ætla hins vegar ekki að biðja ráðherrann að svara því í stuttu andsvari af því að ég er með mjög mikilvæga spurningu til ráðherrans í lok ræðu minnar. En þetta er eitthvað sem við hljótum líka að kalla eftir. Hvar liggja mörkin milli hefðbundinnar borgaralegrar friðargæslu og átakastjórnunar sem flest löndin taka þátt í?

Við í Samf. leggjum mikla áherslu á þróunaraðstoð og að hún verði aukin. Það á að vera sjálfstæð ákvörðun. Slík ákvörðun á ekki að hanga á framboði okkar til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, að stórauka þróunaraðstoð. Ég tók eftir því að hv. þm. Sólveig Pétursdóttir nefndi að í umræðunni ætti ekki að tengja þróunaraðstoð við umsókn okkar til öryggisráðsins en það var beinlínis gert í ræðu hæstv. utanrrh. Ég ætlaði að vekja athygli hennar á því en hún er ekki hér.

Ég vil líka að við beinum sérstaklega sjónum að aðstoð við konur, styðjum þær í fjarlægum heimshlutum til náms og starfa því það hvílir í miklum mæli á þeim að endurbyggja skaddað samfélag. Það var áhrifamikið að hlusta á Elisabeth Rehn þegar hún kom hingað í heimsókn og sagði okkur frá starfi sínu á vegum Sameinuðu þjóðanna. Hún leggur mikla áherslu á stuðning við konur á átakasvæðum. Ofbeldi gegn konum og nauðganir eru núna skipulagðar stríðsaðgerðir, því miður. Ég minnist þess líka að Madeleine Albright beitti sér fyrir því eftir heimsókn í flóttamannabúðir í Miðausturlöndum að útvega fjármagn til þess að fjölga salernum í flóttamannabúðum, og vakti mikla athygli, en það er vegna þess að þau voru fá og langt í burtu og stúlkum var nauðgað á leiðinni þangað.

Virðulegi forseti. Ég hef ekki tölu á því hve oft ég hef tekið upp málefni flóttamanna hér á Alþingi, bæði í utanríkisumræðu og í fyrirspurnatíma við viðkomandi dómsmrh. Síðustu daga hafa mál ungs karls og ófrískrar sambýliskonu hans verið til umfjöllunar í fjölmiðlum. Ég þekki ekki þetta tiltekna mál og ætla ekki að fjalla um það. En af fréttum má ráða að verið sé að kanna hvort þeim verði veitt pólitískt hæli hér á landi. Það væri alveg ný afgreiðsla hjá íslenskum stjórnvöldum og satt að segja stórtíðindi ef svo verður þar sem hingað til hefur nær eingöngu verið veitt hér dvalarleyfi af mannúðarsjónarmiðum. Við höfum notað þau tæki sem við höfum haft til að snúa flóttamönnum til baka héðan frá Íslandi.

Þegar við ræðum um flóttamenn er um að ræða tvenns konar hópa, flóttamenn sem við veljum í flóttamannabúðum erlendis og ákveðum að megi koma hingað heim til okkar, kannski allt að 30 stykki á ári, og svo hælisleitendur sem koma hingað óvænt og leita hér hælis af því að við erum aðilar að flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna. En þar er saga okkar ófögur. Gömlu lögin voru handónýt og erfitt að vinna eftir þeim. Þau tóku ekki mið af raunveruleikanum í alþjóðasamstarfi dagsins í dag. Það var mjög gengið eftir breytingu á þeim og tók mörg ár.

Ný lög skapa loksins forsendur til að taka á móti flóttamönnum þótt þeim sé um margt annað ábótavant. Við eigum að axla þá ábyrgð að veita fólki skjól sem á því þarf að halda. Það eru trúlega nokkuð innan við 100 manns sem hingað leita árlega og fæstir uppfylla skilyrði flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna.

Dyflinnarsamningurinn kveður á um að það megi senda hælisleitanda til næsta stoppistaðar á undan og við erum aldrei fyrsta land. Þeir sem hingað koma hafa alltaf þurft að millilenda einhvers staðar á leiðinni til okkar, fyrirheitna landsins. Flóttamenn eru því sendir til baka og það land látið sjá um að kafa ofan í mál þeirra. Það er því athyglisvert og einstakt ef Ísland skoðar nú sjálft erindi fólks sem hér sækir um hæli sem pólitískir flóttamenn og það er ástæða þess, virðulegi forseti, að ég tek þetta mál upp í utanríkisumræðunni þar sem það vissulega á heima. Að breyttum lögum og af því tilefni sem ég hef hér vakið athygli á, hversu takmörkuð lögin okkar voru sem við fórum eftir í nokkra áratugi, og vegna væntinganna til breytinga við það að búa til ný lög um flóttamenn og útlendinga, hef ég bundið miklar vonir við að við hér á Íslandi mundum bregðast við fólki sem hingað kemur með virðingu, þeirri virðingu sem ég var að vísa til að við norrænar þjóðir hefðum gagnvart minnihlutahópum og því fólki sem á um sárt að binda og flýr land sitt vegna þess að þar eru mannréttindabrot og aðrar ógnir. Þess vegna finnst mér mikilvægt að það geti einhvern tíma legið fyrir hvað þurfi til til að við veitum slíku fólki sem uppfyllir flóttamannasamninginn hæli hér. Það er spurning mín til hæstv. utanrrh. Hver er stefna ríkisstjórnarinnar varðandi flóttamenn sem leita hælis hér og undir hvaða kringumstæðum kemur til greina að veita pólitískum flóttamönnum hæli á Íslandi? Og gleymum því ekki, og það eru lokaorð mín, að flóttamenn sækja minnst til Evrópu en mest til nágranna sinna.