Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 13. nóvember 2003, kl. 13:46:05 (1602)

2003-11-13 13:46:05# 130. lþ. 27.1 fundur 142#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 130. lþ.

[13:46]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég sé ástæðu til þess að koma inn á ýmislegt sem kom fram í ræðu hv. þm. Fyrst vil ég nefna EES-samninginn. Það liggur fyrir að EES-samningurinn var undirbúinn í ríkisstjórn sem Framsfl. og Alþýðuflokkurinn áttu saman sæti í 1989. Það má segja að öll meginatriði þess samnings hafi legið fyrir þegar við fórum úr ríkisstjórn 1991, a.m.k. taldi formaður Alþýðuflokksins á þeim tíma að sjávarútvegssamningurinn hafi algerlega legið fyrir og fann pappíra uppi í sjútvrn. því til stuðnings þegar hann þurfti að verja sig í því máli, m.a. fyrir gagnrýni minni í sambandi við sjávarútvegssamninginn. Það var nú ekki alveg rétt að hann hefði legið fyrir. Hins vegar lá fyrir gífurleg vinna í þessu máli á árunum 1989--1991 þannig að allar meginlínur þessa máls lágu fyrir. Það hefur alltaf legið ljóst fyrir að Framsfl. ber mjög mikla ábyrgð á þessum samningi eins og aðrir stjórnmálaflokkar á Alþingi. Hins vegar er ýmislegt í þessum samningi eins og öllum öðrum samningum sem mönnum líkaði ekki og vildu ekki endilega taka ábyrgð á. En það er nú nauðsynlegt að halda þessu til haga sögunnar vegna.

Vegna þess að því er aftur og aftur haldið fram að Ísland elti Bandaríkin í öllum málum þá vil ég segja að ef litið er til atkvæðagreiðslna á vettvangi Sameinuðu þjóðanna þá greiðum við miklu oftar atkvæði eins og Evrópusambandsríkin en Bandaríkin. Ætli við styðjum ekki Bandaríkin svona álíka oft og Frakkland og Finnland. Við styðjum Bandaríkin í góðum málum þar sem við erum þeim sammála. Eigum við ekki að gera það? Er það stefna Samfylkingarinnar að vera alltaf á móti Bandaríkjunum?