Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 13. nóvember 2003, kl. 13:48:19 (1603)

2003-11-13 13:48:19# 130. lþ. 27.1 fundur 142#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 130. lþ.

[13:48]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit allt um aðkomu Framsfl. að EES-samningnum. Ég man eftir atkvæðagreiðslunni og því að hæstv. utanrrh. leiddi þá helming þingflokks Framsfl. gegn vilja forustunnar í að a.m.k. sitja hjá við samninginn eða ekki greiða atkvæði gegn honum. Mín orð beindust til og voru um aðra þingmenn Framsfl.

En er ekki dæmalaust að hér hef ég staðið og beint fyrst og fremst spurningu til hæstv. utanrrh. um flóttamenn, mál sem er eins og engin leið sé að fá niðurstöðu í hjá hæstv. ríkisstjórn. Um hvað snýst málið? Af hverju eru lögin eins og þau eru eftir alla þessa áratugi? Og af hverju er aldrei hægt að vita hvað þarf að gerast svo fólk fái hugsanlega hér hæli?

Þegar ég hef fært fyrir spurningu minni þau rök sem ég tilgreindi og sagt í ræðu minni að ekkert af því ætlist ég til að hæstv. utanrrh. svari þá leggst hann í að byrja að tuða um nákvæmlega sömu málin og hann er búinn að fara yfir í öllum andsvörum. Og svarið er nei. Ég er ekki að leggja til að við séum alltaf á móti Bandaríkjamönnum. En hæstv. ráðherra veit nákvæmlega að hverju ég er að ýja. Ég óska eftir svari varðandi flóttamennina. Það er stóra málið í ræðu minni í dag.