Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 13. nóvember 2003, kl. 13:50:05 (1604)

2003-11-13 13:50:05# 130. lþ. 27.1 fundur 142#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 130. lþ.

[13:50]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Frú forseti. Ég bendi hv. þm. (Gripið fram í.) --- já fyrrverandi ráðherra --- að þingmaðurinn er að spyrja mig um mál sem heyrir undir dómsmrh. Að sjálfsögðu verður farið að lögum í þessu sambandi. Ég get því miður ekki svarað hv. þm. nákvæmlega hvernig þetta verður. Ekki hafði hv. þm. fyrir því að gera mér viðvart. Hún ætlast til þess að ég geti svarað því án nokkurrar umhugsunar hvernig verði nákvæmlega unnið úr þeim lögum sem hér eru. Ég hef bara ekki aðstæður til þess. Ég er alveg viss um að hv. þm. veit það sem fyrrverandi ráðherra að í svo viðkvæmu og flóknu máli þá væri það rangt af ráðherra að svara til um það án þess að fara yfir málið fyrir fram.

Ég vildi aðeins segja eitt vegna orða hv. þm. um þróunaraðstoð og öryggisráðið. Ég vil taka það skýrt fram að það er stefna ríkisstjórnarinnar að auka þróunaraðstoð, ekki til þess að komast inn í öryggisráðið. Er það stefna Samfylkingarinnar að auka þróunaraðstoð til þess að komast inn í öryggisráðið? (ÖS: Það stendur í ræðunni þinni.) Það stendur ekkert í minni ræðu. Hv. þm. ætti að lesa ræðuna áður en hann segir svona hluti. Það liggur alveg ljóst fyrir að það er stefna ríkisstjórnarinnar að auka þróunaraðstoð, en ekki til að komast inn í öryggisráðið. Það er algjörlega sjálfstætt mál. Það getur vel farið svo að við komumst ekkert inn í þetta öryggisráð. Eigum við þá að hætta við þróunaraðstoð? Þetta er náttúrlega málflutningur sem gengur ekkert upp.