Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 13. nóvember 2003, kl. 14:18:21 (1609)

2003-11-13 14:18:21# 130. lþ. 27.1 fundur 142#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), JGunn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 130. lþ.

[14:18]

Jón Gunnarsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Enn er engu svarað. Það er rétt sem fram kemur hjá hæstv. utanrrh. Ég hafði farið fram á utandagskrárumræðu um uppsagnir á Keflavíkurflugvelli en við það að varnarliðið dró þær til baka ákvað ég að draga umræðuna til baka og sjá hvernig samráð verkalýðsfélaganna og varnarliðsins færi. En nú liggur ljóst fyrir að varnarliðið ætlar sér og mun um næstu mánaðamót segja upp um 105 starfsmönnum, fleiri starfsmönnum en áður hafði verið sagt upp. Mánuðurinn sem er að líða, og keyptur var fyrir það starfsfólk sem sagt verður upp með því að vísa í lög, er lítið annað en gálgafrestur.

Atvinnumál á Suðurnesjum blandast beint inn í það hvernig varnarsamningurinn er uppfylltur. Við sem á Suðurnesjum búum og staðið höfum í sveitarstjórnarmálum í einhvern tíma þekkjum það öll að sífellt hefur verið blandað saman þeirri atvinnu sem varnarliðið veitir Suðurnesjamönnum og aðstoð sem aðrir landshlutar hafa fengið til uppbyggingu atvinnuvega. Ef samdrátturinn á Keflavíkurflugvelli, jafnskarpur og hann virðist ætla að verða, þýðir að hundruð Suðurnesjamanna missi atvinnuna þá tel ég þetta hanga beint saman, varnarsamninginn og framkvæmd hans og atvinnumál á Suðurnesjum. Það er ekki hægt að slíta þetta í sundur, hæstv. forseti, ef þetta hefur bein áhrif hvort á annað.