Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 13. nóvember 2003, kl. 14:22:16 (1611)

2003-11-13 14:22:16# 130. lþ. 27.1 fundur 142#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), JGunn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 130. lþ.

[14:22]

Jón Gunnarsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. utanrrh. skilur ekki að ég skuli taka þetta upp undir umræðum um utanríkismál. Undarlegur málflutningur Samf. hér í dag, segir hann. Ég átta mig engan veginn á því hvert hæstv. utanrrh. er að fara en ég átta mig á að ég hef í raun ekki fengið nein svör. Mér sýnist, hæstv. forseti, að venjan hafi verið sú í dag að eftir ræður hv. þingmanna komi hæstv. utanrrh. upp, reiður, leiður og með nánast allt á hornum sér. En hann svarar ósköp litlu af því sem spurt er um.

Það er sama hvernig við lítum á málin. Það er mikill samdráttur uppi á Keflavíkurflugvelli þessa dagana en hæstv. ríkisstjórn hefur sagt að ekki verði dregið saman á Keflavíkurflugvelli nema í fullu samráði við íslensk stjórnvöld. Eftir hlýtur spurningin að standa sem ég kom með hér í máli mínu áðan, spurningin um hvort bandarísk stjórnvöld séu að ganga á bak orða sinna við íslensk stjórnvöld eða hvort íslensk stjórnvöld hafi vitað að þessi mikli samdráttur væri yfirvofandi og gengi svo snögglega yfir.