Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 13. nóvember 2003, kl. 14:23:52 (1612)

2003-11-13 14:23:52# 130. lþ. 27.1 fundur 142#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÁI
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 130. lþ.

[14:23]

Álfheiður Ingadóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir skýrslu hæstv. utanrrh. um utanríkismál. Ég játa að í upphafi fannst mér hún nokkuð þröng en hún fjallar, eins og fram hefur komið, nær eingöngu um framboð Íslands til setu í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. En það er vissulega mjög þarft að taka það mál til umræðu á hinu háa Alþingi.

Þetta mál er ekki nýtt af nálinni og á undirbúningstímanum ríkti yfirleitt góð samstaða og jákvætt andrúmsloft þegar rætt var um mögulegt framboð Íslands. En þegar ríkisstjórnin skipaði sér í hóp hinna staðföstu ríkja og studdi innrásina í Írak þá tók það að breytast. Það er skiljanlegt. Auðvitað skýtur það skökku við að ríkisstjórn sem tekur þátt í því að brjóta niður vald hinna sameinuðu þjóða með því að styðja árásarstríð á fullvalda þjóð án þess að fyrir liggi samþykki öryggisráðsins skuli hafa áhuga á því að skipa sér á þann bekk.

Það hefur oft verið gagnrýnt að við Íslendingar beitum okkur þá helst á alþjóðavettvangi þegar um er að ræða mál sem snerta sérhagsmuni okkar þó við höfum að sjálfsögðu einnig tekið þátt í óumdeildum hagsmunamálum alls mannkyns á sviðum umhverfismála og mannréttindamála og reyndar á fleiri sviðum og samkvæmt skýrslu hæstv. utanrrh. er nú víðar tekið til hendi og er það vel.

Þegar ég lít yfir ræðu ráðherrans og starfsemi utanríkisþjónustunnar í ljósi framboðsins til öryggisráðsins þá finnst mér reyndar eins og að fyrir nokkrum árum hafi verið tekin í ráðuneytinu handfylli af fræjum, þeim varpað út á völlinn, þar sem þau eru nú víða að byrja að spíra og ætlunin er síðan að uppskera þegar kemur að kosningum til öryggisráðsins árið 2008. Margt af því sem ráðherrann nefndi og Ísland er farið að vinna að á alþjóðavettvangi horfir vissulega til mikilla framfara fyrir frið og öryggi í heiminum --- er ég þá ekki að tala um svonefnda friðargæslu og friðarframkvæmdir sem ég tel reyndar að stappi oft nær þátttöku í stríðsátökum. Ég tel reyndar að ekki eigi að telja framlög til þeirra þátta sem framlag til þróunarsamvinnu.

Ég get tekið undir það sem segir í skýrslu ráðherra, að formennska í Norðurskautsráðinu, í Eystrasaltsráðinu, seta í framkvæmdastjórn UNESCO og Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni, í nefnd um sjálfbæra þróun og í annarri um stöðu kvenna, séu allt mjög verðug verkefni og svið sem Ísland getur látið til sín taka á og á að gera. Ráðherra orðaði það svo að framboðið væri spurning um áræði og metnað fyrir hönd Íslands á alþjóðavettvangi. Ég treysti því að störfin sem Ísland hefur tekið að sér á alþjóðavettvangi muni einkennast af áræði og metnaði og að hvernig svo sem kosningarnar til öryggisráðsins fara árið 2008 muni nýkveiktur áhugi, m.a. á málefnum kvenna, áræði og metnaður í þeim efnum, ekki slokkna.

Ég ætla að staldra aðeins við þann kafla í skýrslu hæstv. ráðherra sem fjallar um konur. Þar kemur m.a. fram að Ísland vinni nú ötullega að því að tryggja framkvæmd fyrirheita um vernd kvenna í átökum og tryggja þátttöku þeirra í friðarferli að átökum loknum. Hér er verið að vísa til ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 frá árinu 2000, um konur, frið og öryggi. Þetta er grundvallarályktun sem hefur þegar haft mikil áhrif á stefnumótun Sameinuðu þjóðanna og stofnana þeirra. Í henni er staðfest að konur hafa hlutverki að gegna hvort heldur er við að fyrirbyggja átök og stríð, í friðarumleitunum, í friðargæslu og ekki síst í uppbyggingu að átökum loknum.

Á ráðstefnu sem hér hefur borið á góma í ræðu hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur, um konur, stríð og öryggi, sem Rannsóknarstofa í kynjafræðum, UNIFEM á Íslandi og Mannréttindaskrifstofa Íslands héldu í sameiningu 11. október sl., var fjallað sérstaklega um þessa samþykkt og reyndar einnig um málefni stríðshrjáðra kvenna í Kosovo og í Írak.

Það er vert að geta þess sem vel er gert. Utanrrn. hefur nú á fjórða ár kostað einn starfsmann UNIFEM í Kosovo. Það hefur verið starfi samtakanna ómetanlegt, vakið mikla athygli og verið góð fyrirmynd fyrir önnur ríki. Í ljósi stuðnings íslensku ríkisstjórnarinnar við innrásina í Írak er hins vegar nauðsynlegt og nærtækt að líta einnig þangað. Þá blasir við hvernig þetta árásarstríð, sem ríkisstjórnin illu heillu gerði okkur aðila að, hefur haft hörmuleg áhrif á líf margra Íraka en einkum þó á líf kvenna. Alger eyðilegging á innviðum samfélagsins, t.d. vatnsveitum, rafveitum, vegasambandi og skólpi, bitnar auðvitað fyrst og fremst á konum og börnum.

Óöldin og öryggisleysið eftir hina svokölluðu frelsun er slíkt að konur þora ekki út fyrir hússins dyr, stúlkur sækja ekki skóla og konur ekki vinnu. Svo mikið er víst að stríðið hefur ekki frelsað konur í Írak. Þarna þurfum við Íslendingar að bæta fyrir gerðir ríkisstjórnarinnar og taka myndarlega til hendi. Ég skora á ráðherrann að beita sér fyrir því.

[14:30]

Virðulegi forseti. Í ársbyrjun 2003 voru 20 milljónir manna á skrá Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna sem er reyndar svipaður fjöldi og árinu áður. Þetta er einn af hverjum 300 jarðarbúum. En inni í þessari tölu eru þó ekki þær 4 milljónir Palestínumanna sem búa í flóttamannabúðum í eigin landi. Flóttamenn sem eru í öðrum ríkjum en heimalandinu eru um helmingur af þessari tölu, um 10,4 milljónir, um 6 milljónir er fólk sem hefur orðið að yfirgefa heimkynni sín en er enn í heimalandinu á flótta og það er vaxandi fjöldi, 2,5 milljónir hafa snúið aftur heim en þarfnast enn stuðnings Flóttamannastofnunarinnar, ein milljón manna er án ríkisfangs og ein milljón manna eru hælisleitendur.

Því nefni ég þetta, virðulegi forseti, að á þennan hóp, þennan stóra hóp jarðarbúa í mikilli neyð, er ekki minnst einu orði í skýrslu hæstv. ráðherra og sakna ég þess. En hver skyldi skýringin vera á því? Getur skýringin verið sú að Ísland getur því miður ekki talist góð fyrirmynd annarra ríkja þegar fjallað er um þennan málaflokk? Og þá er ég að vísa til orða hæstv. ráðherra í skýrslunni um að framboð og hugsanleg seta í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna krefjist þess að Íslendingar leitist við að verða öðrum fyrirmynd.

Íslendingar hafa vissulega af og til á undanförnum árum tekið við nokkrum tugum sérvalinna flóttamanna í senn. Fram til ársins 1996 komu hingað um 204 flóttamenn en eftir skipulagsbreytinguna, þ.e. samkomulag milli félmrn. og Rauða kross Íslands 1996, hafa komið hingað samtals 218 manns. Þetta þýðir að frá því við tókum fyrst við flóttamönnum 1956 --- við skulum ekki gleyma að það eru 20 milljónir manna í þeirri stöðu í heiminum í dag --- höfum við tekið við 422 einstaklingum. Hér verðum við að taka betur á. Við verðum að opna landamæri okkar fyrir þeim sem eru órétti beittir annars staðar í heiminum og eru í neyð og leitast þannig við að tryggja réttlæti án landamæra.

En hitt, virðulegi forseti, er þó sýnu verra hvernig svo virðist sem hælisleitendur séu hundeltir hér á landi að því er virðist í þeim tilgangi einum að koma þeim úr landi sem fyrst og helst áður en fjölmiðlar og mannréttindasamtök komast í málið. Því miður eru mörg dæmi um dapurlega framgöngu yfirvalda og stjórnvalda í þessum efnum. Eins og t.d. þegar svokallaðri rúmenskri fjölskyldu var vísað hér úr landi í sumar, fjölskyldu sem í raun tilheyrði ungverska minni hlutanum í Rúmeníu.

Þessa dagana eins og á hefur verið bent í þessum ræðustól í dag reynir reyndar á hvort brottvísun af því tagi er að verða algild regla hjá núverandi ríkisstjórn. En sem kunnugt er hefur ungt par frá Afganistan og Úsbekistan nýlega lagt inn beiðni um pólitískt hæli hér á landi. Það er eftirtektarvert að þetta mun vera eina málið á árinu og það er komið fram undir miðjan nóvembermánuð, þar sem það hefur yfir höfuð komið til skoðunar hjá yfirvöldum hvort eigi að veita pólitískt hæli. Það mun verða fylgst með niðurstöðu þessa máls.

Því nefni ég þetta, virðulegi forseti, að vandi flóttamanna er vandi kvenna. 80% af öllum flóttamönnum í heiminum í dag eru konur og börn. Ef Íslendingar ætla sér það verk að tryggja framkvæmd samþykktar öryggisráðsins nr. 1325/2000 eins og ráðherrann sagði áðan, um konur frið og öryggi, þá er einfaldlega ekki hægt að láta eins og flóttamannavandinn sé ekki til. Og þá þurfa menn að lesa þessa ályktun aftur, sérstaklega 4. mgr. samþykktarinnar og reyndar líka 7., 9. og 12. tölul. í henni.

Ég nefndi í upphafi að framboð Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna hafi þegar haft áhrif og jafnvel jákvæð áhrif á tiltekna þætti í utanríkisstefnu ríkisstjórnarinnar. En það er augljóst að ríkisstjórnin verður þó að gera betur ef Ísland á að geta talist góð fyrirmynd í stríðshrjáðum heimi. Ríkisstjórnin verður að breyta áherslum sínum, bæði hvað varðar þróunaraðstoð og flóttamannavandann í heiminum. Það mun verða spurt um afstöðu Íslands í stóru og smáu.

Vinstri hreyfingin -- grænt framboð mun auðvitað leggja sitt af mörkum til að halda ríkisstjórninni við efnið og tryggja að með þeim nýju áherslum og þeim nýju verkefnum sem nú hafa verið lagðar á herðar Íslands á alþjóðavettvangi, að þeim verði ekki kastað fyrir róða, enda þótt framboðið til setu í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna leiði ekki til þeirrar niðurstöðu að við fáum sæti þar.

Við skulum ekki gleyma því að á árinu 2008 verður núv. ríkisstjórn vonandi löngu farin frá og önnur og betri tekin við.