Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 13. nóvember 2003, kl. 14:41:16 (1616)

2003-11-13 14:41:16# 130. lþ. 27.1 fundur 142#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÁF
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 130. lþ.

[14:41]

Ásgeir Friðgeirsson:

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir góða ræðu hv. utanrrh. Halldórs Ásgrímssonar. Einkum gleðst ég yfir þeim mikla metnaði fyrir Íslands hönd sem þar kemur fram. Aðild Íslands að öryggisráði Sameinuðu þjóðanna er háleitt markmið og verði það að veruleika mun það án efa auka hróður Íslendinga um allan heim.

Ég er þeirrar skoðunar að við Íslendingar eigum að ætla okkur verðug hlutverk á alþjóðavettvangi og stefna þar hátt. Á hinn bóginn eigum við að velja áfangastaði á þeirri vegferð af kostgæfni. Ég er ekki tilbúinn að styðja umsókn Íslands að öryggisráðinu skilyrðislaust. Umsóknin má ekki koma niður á annarri starfsemi utanríkisþjónustunnar. Mikilvæg þjónusta á sviði viðskipta, menntunar og menningar má ekki falla í skuggann fyrir hávaðasamri kosningabaráttu.

Nauðsynlegt er að mínum dómi að ítarleg áætlun fyrir framboð Íslands verði opinber þar sem markmið, leiðir og áætlaður kostnaður verði á dagskrá í hinni almennu þjóðmálaumræðu, sem og hér á Alþingi. Fyrr en ég sé slíka áætlun get ég ekki stutt umsókn sem þessa.

Virðulegi forseti. Vandi fylgir vegsemd hverri. Ef Íslendingar ætla að axla þá ábyrgð að sitja í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna þurfa orð okkar og æði á alþjóðavettvangi að standast skoðun. Við verðum í senn að vera staðföst og sjálfum okkur samkvæm og umfram allt þurfum við að sýna sjálfstæði í afstöðu okkar. Fram til þessa hefur okkur ekki tekist þetta. Rökstuðningur fyrir ákvörðunum okkar á alþjóðavettvangi er fjarri því í mörgum tilfellum að vera skýr.

Samkvæmt sögulegum rannsóknum hafa atkvæði Íslendinga í atkvæðagreiðslum í allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna oftar fallið í sama far og atkvæði Bandaríkjanna í samanburði við t.d. Norðurlandaþjóðir. Er það veganesti okkar í þetta framboð, virðulegi forseti? Hvernig rökstyðjum við þá sögulegu staðreynd? Hvernig rökstyðjum við að yfirgefa nágranna okkar á Norðurlöndum, Þýskalandi, Frakklandi og víðar og ganga til liðs við Bandaríkjamenn og Breta í innrás á Írak? Mér er til efs að rökstuðningur íslenskra stjórnvalda fyrir þeirri umdeildu ákvörðun sem þó fékkst ekki rædd á Alþingi standist skoðun í Mið-Evrópu, Miðausturlöndum, Afríku eða Austurlöndum fjær.

Frú forseti. Ef marka má ræðu utanrrh. ætla íslensk stjórnvöld að byggja framboð sitt m.a. á auknum stuðningi við þróunarríkin. Fullyrt hefur verið að án aukningar sé öll von úti um að hin fjölmörgu þróunarríki styðji framboð okkar. Án stuðnings þeirra er engin von til þess að Íslendingar setjist í stól við borð öryggisráðsins.

Í þessum málaflokki verðum við einnig að vera sjálfum okkur samkvæm. Í ræðu sinni áðan sagði hæstv. utanrrh., með leyfi virðulegs forseta:

,,Besta leiðin til að bæta hag þróunarríkja, sem og annarra ríkja, er að tryggja frelsi í alþjóðlegum viðskiptum og stuðla að aukinni þátttöku þeirra. Alþjóðabankinn hefur sett fram það mat að ef allar viðskiptahindranir yrðu aflagðar myndi það auka alþjóðaviðskipti um jafnvirði 2.180 milljarða Bandaríkjadala og koma 320 milljónum manna yfir fátæktarmörk.``

[14:45]

Gott og vel. Það hefur lengi verið vitað að með frjálsum viðskiptum, einkum með landbúnaðarafurðir, er helst von til þess að þróunarríki geti komist til bjargálna. Það hefur verið baráttumál fátækra þjóða um árabil að geta selt landbúnaðarafurðir hindrunarlaust á Vesturlöndum. Hvernig höfum við Íslendingar brugðist í verki?

Íslendingar eru aðilar að Alþjóðaviðskiptastofnuninni þar sem unnið er að auknu frelsi í alþjóðlegum viðskiptum. Í nýlegri reglugerð fjmrn. sem samin hefur verið vegna aðildar okkar að stofnuninni er kveðið á um tollfrjálsan innflutning á vörum sem upprunnar eru í fátækustu ríkjum heims. Ekki er annað að skilja en að markmið reglugerðarinnar sé að tryggja tollfríðindi og frjáls viðskipti við þessi sárafátæku ríki. En viti menn. Með reglugerð þessari fylgir viðauki þar sem listaðir eru þeir vöruflokkar sem ekki skulu njóta tollfríðinda. Samkvæmt samantekt Eiríks Bergmanns Einarssonar stjórnmálafræðings sem hann birti í dagblaðsgrein í sumar eru hvorki fleiri né færri en 113 vöruflokkar listaðir upp og allt eru þetta landbúnaðarvörur. Með öðrum orðum, virðulegi forseti, geta fátækustu þjóðir þessa heims flutt til Íslands tollfrjálst alls konar vörur en bara ekki þær sem þjóðirnar framleiða. Tsjad, Gvæjana og Ekvador geta flutt fótanuddtæki, tölvur og frystikistur til Íslands en ekki það sem vex á ökrum íbúanna eða í trjánum. Smáríki sem ætla sér frama á alþjóðavettvangi í krafti orðspors en ekki auðs og valds getur ekki leyft sér tvöfeldni af þessu tagi. Það skiptir engu máli hversu mörg hundruð milljónum króna Íslendingar verja í framboð til öryggisráðsins, á meðan við sýnum ósamkvæmni af þessu tagi getum við gleymt draumnum um stólinn eftirsótta.

Það fyrsta sem Íslendingar ættu að gera er að taka upp samning Evrópusambandsríkja við 49 fátækustu ríki heims. Sá samningur heimilar frjálsan innflutning á öllum vörum nema stríðsvopnum frá þessum tilteknu ríkjum. Öfugt við fjölmarga varanlega fyrirvara í áðurnefndri reglugerð fjmrn. eru undanþágur þessa samnings fáar og tímabundnar. Forvitnilegt væri að heyra, virðulegi forseti, hvort hæstv. utanrrh. hafi uppi áform um að fækka hindrunum í vegi innflutnings á landbúnaðarvörum frá fátækustu ríkjum veraldar til Íslands.

Sýni Íslendingar vilja í verki og geri sambærilega samninga við hinar sárafátæku þjóðir þessa heims mun ég öðlast mun meiri trú á framboð okkar til öryggisráðsins, ekki vegna þess að okkur hafi tekist að kaupa fáein atkvæði heldur vegna þess að þannig sýnum við að við erum reiðubúin að aðlaga og breyta samfélagi okkar svo að okkar minnstu bræður komist til sjálfsbjargar.

Virðulegi forseti. Ég hef kosið hér að ræða það mál sem hæstv. utanrrh. fjallar hvað ítarlegast um í ræðu sinni. Það geri ég vegna þess að málið er mikilvægt og verður enn mikilvægara eftir því sem kraftar utanríkisþjónustunnar beinast frekar í þessa átt. Meginatriðið er ekki seta í einu ráði frekar en öðru. Mestu skiptir fyrir smáríki á borð við Ísland að sýna í verki virðingu fyrir mannréttindum, frjálsum samskiptum og viðskiptum, stuðning við frið og friðarstörf og umfram allt sjálfstæði gagnvart stórveldum sem vilja í krafti vopna og auðs stýra og stjórna því sem í heiminum hreyfist. Frú forseti. Geri íslensk stjórnvöld það eru okkar vegir færir.