Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 13. nóvember 2003, kl. 14:52:23 (1619)

2003-11-13 14:52:23# 130. lþ. 27.1 fundur 142#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 130. lþ.

[14:52]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Frú forseti. Svarið við þessari spurningu er já. Ég vil taka það fram, vegna þess að hv. þm. hvatti okkur til þess að sýna meiri samstöðu með Evrópusambandinu, að við höfum gengið mun lengra í samstarfi og vilja okkar gagnvart þróunarríkjum en Evrópusambandið. Ég sé enga ástæðu til að vinna sérstaklega með þeim að þessu máli. Ég minni á að ég gerði það að tillögu minni á fundi í Mósambík að fulltrúar Norðurlandanna ættu sérstakt samstarf við fulltrúa Afríkuríkja til að reyna að leggja sitt af mörkum til að brúa þetta bil. Það er alveg ljóst að það eru ýmsar landbúnaðarvörur sem ekki er hægt að flytja inn hér. Það eru hins vegar fyrst og fremst mjólkurvörur og kjötvörur, ekki þær vörur sem þessi ríki framleiða. Þar ber hæst kaffi, te, hveiti, baðmull og margt fleira sem við lítum almennt ekki á, Íslendingar, sem landbúnaðarvörur. Þegar við erum að tala um landbúnaðarvörur er það ansi ríkt í okkur að tala um kjöt, ost og mjólkurvörur. Mér heyrist a.m.k. umræðan á Alþingi vera þannig og umræðan í þjóðfélaginu. Á heimsvísu er svo margt annað landbúnaðarvörur. Það eru vín, allar korntegundir og guð má vita hvað flokkast undir landbúnaðarvörur. Það er meira og minna frjálst að flytja þessar vörur hingað til lands og við flytjum inn miklu meira af landbúnaðarvörum í skilningi alþjóðaviðskipta en við framleiðum sjálf. Við framleiðum í reynd lítið brot af þeim landbúnaðarvörum sem við neytum. Og það er ekki síst með þetta að bakgrunni sem við eigum tiltölulega auðvelt með, án þess að það kosti okkur mikið, að ganga mjög langt til móts við þróunarlöndin í þessu sambandi.