Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 13. nóvember 2003, kl. 15:12:15 (1622)

2003-11-13 15:12:15# 130. lþ. 27.1 fundur 142#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), GMJ
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 130. lþ.

[15:12]

Grétar Mar Jónsson:

Hv. þingforseti. Ég vil byrja á því að þakka utanrrh. fyrir þessa skýrslu. Ég tók eftir því að í skýrslunni var hratt farið yfir það sem snýr að hafrétti og hafréttarmálum. Ég hefði viljað að það yrði útskýrt betur hvaða vinna er í gangi varðandi Rockall-svæðið í fyrsta lagi og í öðru lagi varðandi Svalbarðasvæðið og Jan Mayen-svæðið. Ég tel að við eigum skýlausan rétt á þessum hafsvæðum. Þetta snýst ekki bara um fisk. Þetta snýst um botninn og hugsanlega nýtingarmöguleika á efni úr botni þarna í framtíðinni. Ég hefði talið að vinna þyrfti í þessum málum meira en gert hefur verið. Ég veit reyndar ekki nákvæmlega hver staða mála er, en ég óska eiginlega eftir því að fá skýringu á því hvar við erum staddir í þessu.

Varðandi Suðurnes og atvinnumál á Suðurnesjum þá held ég að stjórnvöldum hljóti að vera það ljóst núna að það þarf nánast sérstakar aðgerðir á Suðurnesjum í atvinnumálum. Það er atvinnuleysi á Suðurnesjum núna. Á milli 300 og 400 manns eru á atvinnuleysisskrá. Það kallar beinlínis á það þegar fleiri atvinnulausir koma á svæðið að gripið verði til sérstakra aðgerða. Ekki er óeðlilegt að fjallað sé um þau mál í utanrmn. þar sem utanrrn. er yfir sýslumannsembættinu á Keflavíkurflugvelli og öllu sem snýr að varnarsvæðinu. Það er sérstakt sýslumannsembætti og tilheyrir utanrrn. hjá okkur. Því er ekkert óeðlilegt að fjallað sé um það hér þegar utanrrh. flytur sitt mál um utanríkismál.