Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 13. nóvember 2003, kl. 15:17:08 (1624)

2003-11-13 15:17:08# 130. lþ. 27.1 fundur 142#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), JBjart
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 130. lþ.

[15:17]

Jónína Bjartmarz:

Herra forseti. Hæstv. utanrrh. hefur gert grein fyrir ákvörðun ríkisstjórnarinnar um framboð til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Þessi ákvörðun er að mínu mati rökrétt framhald á þróun síðustu áratuga þar sem við Íslendingar höfum með auknum hætti beitt okkur og axlað ábyrgð í samfélagi þjóðanna. Það hefur sýnt sig að friðsöm smáríki hafa mikilvægu hlutverki að gegna í þessari æðstu stofnun alþjóðasamfélagsis. Enn þá geta smáríki komið að átökum og smáríki geta miðlað málum án þess að vera tortryggð fyrir að vera að þjóna eigin hagsmunum eða þjóna eigin stórveldishagsmunum. Framboðið er því fullkomlega tímabært og það ber að reka af fullum þunga en auðvitað samhliða því að við vinnum að öðrum mikilvægum verkefnum á sviði utanríkismála.

Það má í raun segja að þau skref sem hafa verið stigin undanfarin ár til þess að byggja upp utanríkisþjónustuna hafi þegar skilað þeim árangri að rödd Íslands heyrist nú betur í alþjóðasamfélaginu en fyrr. Ánægjuleg staðfesting á þeim árangri, sem íslenska utanríkisþjónustan hefur náð undir forustu hæstv. utanrrh., fékkst í vor þegar það alþjóðlega tengslanet sem byggst hefur upp í ráðherratíð hæstv. utanrrh. varð til þess að það tókst að beina viðræðum Íslendinga og Bandaríkjamanna um framtíð varnarsamningsins í þann eðlilega farveg sem sá samningur er nú kominn í.

Herra forseti. Eitt mikilvægra verkefna okkar í utanríkismálum er samvinna við Norðurlöndin og Evrópusamvinnan. Við eigum mikla samleið í Evrópumálum með hinum Norðurlöndunum en þessar frændþjóðir eru jafnframt okkar helsti stuðningur varðandi framboðið til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. En nú þegar samningur um stækkun hins Evrópska efnahagssvæðis hefur verið undirritaður í óbreyttri mynd og mun minnkandi líkur eru á uppfærslu samningsins vil ég koma aðeins inn á það hvernig stækkun ESB horfir við Norðurlöndunum sem heild en þessi mál hafa mikið verið rædd á vettvangi Norðurlandaráðs og nú síðast á Norðurlandaráðsþingi sem haldið var í Ósló á dögunum.

Stækkun Evrópusambandsins eykur þörfina á því að Norðurlönd hafi samráð um hagsmunamál sín í Evrópusamstarfinu og það á jafnt við norrænu ESB-löndin og Ísland og Noreg sem hafa valið að tengjast Evrópu með EES-samningnum. Samstarf Evrópuríkjanna bæði breikkar og dýpkar þegar tíu ný aðildarríki bíða inngöngu í ESB og metnaðarfull stjórnarskrá með umfangsmikum stjórnsýsluumbótum er í bígerð. Stækkun sambandsins felur í sér ný tækifæri fyrir Norðurlönd því flest bendir til þess að samstarf ríkjahópa með sameiginleg gildi og hagsmuni muni aukast til mikilla muna innan ESB.

Herra forseti. Norðurlöndin hafa valið ólíkar leiðir til þátttöku í yfirstandandi samrunaþróun Evrópu og raunar ólíkar leiðir til þátttöku innan ESB, t.d. hvað varðar evruna. Hvað sem því líður þá er Evrópuréttur fyrirferðarmikill í löggjöf allra Norðurlandanna, jafnt þeirra ríkja sem taka þátt í mótun hans og hinna sem standa fyrir utan ákvarðanatökuna um löggjöfina. Og þrátt fyrir að Norðurlöndin hafi valið ólíkar leiðir á ýmsum sviðum þá breytir það ekki því að löndin hafa svipaða hagsmuni og lífsgildi sem þessi lönd standa best vörð um í sameiningu. Norðurlöndin eru öflug heild sem oft og tíðum hefur haft forustu um breytingar og þau hafa líka orðið öðrum fyrirmynd að svæðisbundnu samstarfi. Skýr dæmi um þetta er sameiginlegur vinnumarkaður og vegabréfasamstarf Norðurlanda sem komið var á fót áratugum áður en slíkt varð nokkur raun innan ESB.

Annað dæmi eru jafnréttismálin. En þó að ýmislegt skorti á að fullu jafnrétti sé náð, t.d. í launamálum á Norðurlöndunum, þá er hlutur kvenna samkvæmt flestum mælistikum betri á Norðurlöndum en annars staðar í Evrópu og í rauninni í öllum heiminum. Með því að vera fyrirmynd hvað varðar þjóðfélagsuppbyggingu og samstarf á milli þjóða hafa Norðurlönd sem ríkjahópur styrkari stöðu til að hafa sterk áhrif á alþjóðavettvangi ein sér eða í samstarfi sín á milli. Og eins og við þekkjum hefur norræna samstarfið verið Íslendingum einkar happadrjúgt á liðnum árum og áratugum og það hefur spannað mjög vítt svið atvinnu, menntunar og menningar þótt hér sé hvorki staður né stund til að tíunda margvíslegan ávinning okkar af því. En það gleymist líka oft í þessari umræðu hve samstarfið hefur geysilega mikil áhrif fyrir alþjóðasamskipti okkar af því að Norðurlöndin eru okkar nánustu bandamenn í alþjóðamálum og við leitum fyrst og síðast eftir stuðningi bræðraþjóða okkar þegar mikilvæg hagsmunamál Íslendinga eru uppi á vettvangi alþjóðasamfélagsins.

Það er ljóst að Ísland nýtur góðs af norrænu samstarfi í Evrópumálum enda er þar vettvangur til viðræðna við þau ríki ESB sem tengjast okkur nánustum böndum. Þar mætum við velvilja og getum mælt fyrir áherslumálum okkar í Evrópusamstarfinu með fullum skilningi og betri skilningi en víðast hvar annars staðar á sérstöðu Íslendinga og séríslenskum aðstæðum.

Herra forseti. Hvort sem við Íslendingar ákveðum að halda tengslum okkar við ESB í gegnum EES-samninginn, eins og við höfum gert, eða sækjum um aðild að ESB einhvern tíma í framtíðinni þá er það stuðningur þessara frændþjóða sem við reiðum okkur fyrst og fremst á. Og í ljósi þeirrar óvissu sem nú ríkir um framtíð EES-samningsins er það afar jákvætt fyrir okkur að staða og hlutverk Norðurlandanna í Evrópu sé í brennidepli í norrænu samstarfi.

Það er mín skoðun að Norðurlandasamstarfið muni eftir sem áður vera okkar mikilvægasti pólitíski samráðsvettvangur í Evrópumálunum og annars staðar og jafnframt brú okkar til Evrópu, til álfunnar hvernig sem við kjósum að haga tengslum okkar að öðru leyti.

Herra forseti. Hæstv. utanrrh. nefndi í ræðu sinni aukin umsvif okkar Íslendinga í friðargæslu og aukin umsvif okkar í friðarframkvæmd. En framboð til sætis í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna endurspeglar klárlega bæði dug okkar og metnað á þessu sviði. Í því tilefni vil ég nefna að á norrænum vettvangi hefur verið töluverð umræða um friðargæsluna og hvernig Norðurlöndin og þá í sameiningu geti verið í fararbroddi á því sviði, og svo ég víki nú að því sem gjarnan hefur verið nefnt af öðrum ræðumönnum í dag, hefur sérstök áhersla verið lögð á það hvernig hægt sé á þessum vettvangi að bæta stöðu kvenna á átakasvæðum. En hlutur og hlutverk kvenna í nútímahernaði, í nútímastríðsátökum, hefur á undanförnum árum og undanförnum missirum verið æ ofar á baugi á alþjóðavettvangi og er það vel og tímabært.

Flest stríðsátök samtímans eiga sér stað innan ríkja milli ólíkra kynþátta og milli fólks sem aðhyllist ólík trúarbrögð. Þessi innbyrðis átök hafa gríðarleg samfélagsleg áhrif á konur og þau hafa mun meiri áhrif á konur en hefðbundnar styrjaldir á milli ríkja eins og heyra núna sögunni til, alla vega í bili.

Við höfum öll kynnst umræðunni sem varð vegna voðaverkanna sem voru framin á Balkanskaga í nafni þjóðernishreinsana. Þau voðaverk leiddu til alþjóðlegrar vitundarvakningar um stöðu kvenna á átakasvæðum sem hefur m.a. birst í ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325/2001 sem hefur einu sinni eða tvisvar þegar í þessari umræðu í dag verið nefnd. Mig langar, herra forseti, eins og aðrir ræðumenn fyrr í dag að nefna skýrslu Elisabethar Rehn og Ellenar Johnson, skýrsluna Konur, stríð og friður sem rituð var fyrir UNIFEM. En eins og líka hefur komið fram kynnti Elisabeth Rehn skýrsluna hér á landi fyrir skemmstu, bæði á ráðstefnu sem haldin var í háskólanum á vegum stofnunar í kynjafræðum og eins á fundi sem hún átti með fulltrúum í utanrmn. Þessi skýrsla er ógnvekjandi lesning um þann hrylling skipulegs ofbeldis og sérstaklega skipulegs kynferðislegs ofbeldis sem konur og börn í nútímanum verða fyrir í stríðsátökum. Í þessari skýrslu segir frá því hvernig kvenlíkaminn hefur orðið hluti af vígvellinum og hvernig skipulegum nauðgunum er víða vísvitandi beitt sem vopni gegn óvininum og jafnframt vopni gegn samfélagi óvinarins. Með því er ráðist að hornsteini samfélagsins, fjölskyldustoðinni og afleiðingin hvarvetna er heildræn félagsleg upplausn.

Það er ákveðin kaldhæðnisleg staðreynd að konur eru mun líklegri til að halda kyrru fyrir þegar átök brjótast út heldur en karlmenn og lenda því oftar í átökunum miðjum og í vítahringnum miðjum. Að stríðinu loknu eru það einnig konur sem bera skarðan hlut frá borði. Það eru konur sem halda fjölskyldunum saman eftir stríðsátök. Það eru konur og mæður sem leita týndra ástvina og það eru konur og mæður sem þurfa að axla ábyrgðina á því að brauðfæða börn sín. En það eru líka konur sem þurfa að bera skömmina eftir skipulegar kynferðislegar ofbeldisaðgerðir og þessar sömu konur eru jafnvel útskúfaðar úr sínu eigin samfélagi. Þetta þrotlausa stríð þessara kvenna, sem svo vel er gerð grein fyrir í bók Elisabethar Rehn og Ellenar Johnson, er fyrst og fremst háð í einsemd og það er háð fjarri augum alþjóðasamfélagsins en það er engu minna og hefur ekki minni áhrif en tímabundið vopnaskakið sem aftur og aftur og ávallt fyrst og fremst kallar á kastljós fjölmiðlanna.

Þessi orð mín, herra forseti, eru ekki sögð í pólitísku eða sögulegu tómarúmi. Það eru karlagildi sem hafa stýrt stríðsrekstri og þeim aðferðum sem hafa einkennt stríð og það sem meira er og það sem er verra og bent er líka á í skýrslunni Konur, stríð og friður er að það eru líka karlagildi og viðhorf sem stýra viðbrögðum alþjóðasamfélagsins við þeim hörmungum sem dunið hafa yfir. Við Íslendingar erum eins og aðrir Norðurlandabúar fjarri átökum bæði í tíma og rúmi, en á sama tíma erum við afar virkir þátttakendur í friðargæslu og jafnréttishefðin er hvergi jafnsterk og hér á landi og annars staðar á Norðurlöndunum. En þetta er einmitt það tvennt sem gerir það að verkum að við og aðrar Norðurlandaþjóðir erum mun betur í stakk búin en nokkur önnur ríki til að setja málefni kvenna í forgang í friðargæslunni í samræmi við ályktun öryggisráðsins nr. 1325. Ég tel að Norðurlöndunum beri í sameiningu að taka frumkvæði í að taka mun ríkara tillit til aðstæðna kvenna á átakasvæðum og vinna að því að framfylgja þeirri alþjóðlegu vernd sem konum og börnum ber samkvæmt alþjóðasáttmálum, og það hefur verið tilfinnanlegur skortur á alþjóðavettvangi á því að hugað sé sérstaklega að hlutskipti kvenna, barna og fjölskyldna eftir að stríðsátökum lýkur. Allt eru þetta málefni sem við Íslendingar getum og eigum að láta okkur varða, fyrst og fremst í samvinnu við frændþjóðir okkar, því að á þessu sviði getum við gert meira gagn en á mörgum öðrum sviðum þar sem við erum að stafa á vettvangi utanríkismála.

Ein leiðin sem m.a. Elisabeth Rehn leggur áherslu á er að sýna konur sem fyrirmyndir fyrir þær konur í stríðshrjáðum löndum sem standa frammi fyrir því verkefni að byggja upp samfélag sem stríðsátök hafa lagt í rúst. Við þurfum að horfast í augu við það að konur hafa gjarnan annað sjónarhorn á viðfangsefni á þessu sviði og forgangsröðun verkefna og þær sjá aðrar þarfir og aðrar lausnir á hvernig eigi að forgangsraða og þær gera það á töluvert annan hátt en karlar. Um það höfum við fjölmörg dæmi í þessari títtnefndu skýrslu og í annarri lesningu um þessar aðstæður.

Ég lít þannig á að markmið okkar hljóti að vera að tryggja sem jafnastan hlut kvenna og karla í friðargæslustörfum okkar og í alþjóðastarfi á þessu sviði, eins og í öllum öðrum störfum, bæði innan lands og á sviði utanríkisþjónustu. Þess vegna langar mig að nota þetta tækifæri og spyrja hæstv. utanrrh. sérstaklega um hlut kvenna í íslensku friðargæslunni og jafnframt um þær hugmyndir sem eru um að efla friðargæsluna og að auka fræðslu og almennan undirbúning fyrir friðargæslustörf.

Á þskj. 276 er svar frá hæstv. utanrrh. við fyrirspurn um íslensku friðargæsluna. Þar kemur fram að á viðbragðslista er 151 einstaklingur og þar af er 21 einstaklingur að störfum. Það kemur líka fram að 41 einstaklingur hefur verið sendur á vettvang.