Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 13. nóvember 2003, kl. 16:05:25 (1636)

2003-11-13 16:05:25# 130. lþ. 27.1 fundur 142#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), JBjarn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 130. lþ.

[16:05]

Jón Bjarnason (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hæstv. utanrrh. um að hófs beri að gæta í kostnaði við þetta framboð. Í fyrsta lagi eru fleiri þjóðir um hituna og engan veginn séð hvernig þetta fer, enda er ekki markmiðið að kaupa sig inn í öryggisráðið, alls ekki, heldur fara þangað á grunni málefna. Ég styð því að hófs sé gætt. Engu að síður er mikilvægt að um þetta sé gerð áætlun einmitt kannski til að gæta hófs innan utanríkisþjónustunnar. Okkur finnst hún vaxa býsna mikið. Það hefur verið gagnrýnt að kostnaður utanrrn. þenst út. Sumt er kannski réttmætt en sumt ekki. Þegar nýir þættir eins og þessi koma inn í starfsemi utanríkisþjónustunnar er því mjög mikilvægt að menn skoði mjög ítarlega hvað verið sé að gera til að halda því innan marka, til að halda utan um það þannig að það sleppi ekki úr böndunum.

Virðulegi forseti. Ég ítreka að aðildarumsókn okkar að öryggisráðinu og sjálfstæð friðarstefna í utanríkismálum verða að fara saman.