Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 13. nóvember 2003, kl. 16:07:15 (1637)

2003-11-13 16:07:15# 130. lþ. 27.1 fundur 142#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 130. lþ.

[16:07]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir hv. þingmenn þakka fyrir þessa hefðbundnu skýrslugerð utanrrh. sem í þetta sinn var þó býsna óhefðbundin því segja má að þessi ræða hans frá því í morgun hafi verið einkar löng framboðsræða og þau álitamál af erlendum toga sem hann kom að voru í raun öll sett inn í búnað kosningabaráttu Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna árið 2008. Um þetta er svo sem ekkert sérstakt að segja.

Hitt hefur vakið athygli mína í dag að hæstv. utanrrh. hefur tekið það býsna óstinnt upp og verið eilítið kvartsár, nánast hvumpinn þegar honum hefur verið bent á það með rökum að í þessari ræðu sé ekki að finna mjög mikilvæg atriði í núinu og alveg í næstu framtíð. Ég hef hlýtt á svör hans og viðbrögð við athugasemdum flokksfélaga minna, okkar jafnaðarmanna, um að Írak sé nefnt í framhjáhlaupi, um að fylgispekt Íslands við Bandaríkjastjórn sé gagnrýni verð og um að ekki sé farið yfir alvarlega stöðu mála á Suðurnesjum. Þá hefur hæstv. ráðherra gagnályktað og sagt sem svo að við jafnaðarmenn getum ekki á sama tíma lýst yfir andúð okkar á framferði Bandaríkjamanna í Írak en samt óskað eftir viðræðum á jafnréttisgrundvelli um stöðu varnarmála í Keflavík. Mér finnst einmitt að þetta geti gengið saman. Það er einmitt þetta sem gengur saman og það er einmitt þetta sem er hinn rauði þráður ræðu hæstv. ráðherra sem ég tek hjartanlega undir, þ.e. að við erum hvorki að selja sálu okkar eða sjónarmið á hinum alþjóðlega vettvangi fyrir sæti í öryggisráðinu né fyrir óbreytanleika í varnarviðbúnaði á Keflavíkurflugvelli.

Virðulegi forseti. Ég vil undirstrika það skýrt sem flokksfélagar mínir hafa hér einnig lagt höfuðáherslu á, þ.e. að málið er tvíþætt og af tvennum toga. Annars vegar erum við að horfa framan í að því er virðist ófremdarástand sem nú þegar er brostið á hvað varðar atvinnumál á svæðinu. En kannski er ekki sanngjarnt að inna hæstv. utanrrh. eftir viðbrögðum hans í því efni, enda ekki á hans vettvangi. Ég tel þó eðlilegt að hann sé inntur eftir því sem annar oddviti ríkisstjórnarflokkanna hvernig ríkisstjórnin ætli að bregðast við því nú þegar og hvort í undirbúningi séu aðgerðir til þess að takast á við þennan vanda sem þegar er á brostinn og felst í hundruðum atvinnulausra þar syðra. Það hlýtur að vera sanngjarnt og eðlilegt að við fáum málefnaleg svör við því en ekki, að því er mér finnst, nánast útúrsnúning eins og fram kom í andsvörum hæstv. ráðherra við ágætri ræðu hv. þm. Jóns Gunnarssonar sem hefur eðlilega áhyggjur af því sem þingmaður þessa svæðis hvernig staða mála er orðin og hvort hún fari síversnandi. Ég hlýt með yfirveguðum hætti að kalla eftir því hvort ríkisstjórnin sé með á borðum sínum einhverjar þær aðgerðir brýnar og bráðar í tíma sem geta stemmt stigu við þeirri óheillaþróun sem á sér stað þarna syðra. Við skulum ekki gleyma því að í gegnum árin hafa menn gripið til sértækra aðgerða af minna tilefni.

Svo er það hinn þáttur málsins sem er á vettvangi utanrrh. sjálfs og lýtur að umfangi og öryggi Íslands. Þar eru mál með þeim hætti eins og við vitum öll og upplýst hefur verið að lyktum að Bandaríkjastjórn hafði uppi áform um að draga verulega úr varnarviðbúnaði og jafnvel flytja varnarliðið að mestu úr landi. Hæstv. utanrrh. og raunar hæstv. forsrh. hafa að lyktum eftir langt þagnarferli upplýst að þeir hafi náð sambandi við lykilmenn bæði vestra og raunar í Evrópu líka, Robertson lávarð, um að þetta yrði allt sett á ,,hold`` eins og sagt er á vondu máli, að þessu yrði öllu frestað og þetta yrði tekið inn í hina stóru endurskoðun. Hvað úr því verður og hvort hér sé um gálgafrest að ræða get ég ekkert fullyrt frekar en hæstv. ráðherra. En ég vil vekja athygli hæstv. ráðherra á málatilbúnaði okkar jafnaðarmanna í þinginu sem birtist m.a. í þáltill. þar sem 1. flm. er formaður Samfylkingarinnar. Þar vilja menn reyna að kortleggja skipulega og bregðast við öllum þeim möguleikum sem upp gætu komið. Ég er að vísa til þáltill. um að sett yrði á fót sérstök nefnd skipuð fulltrúum allra þingflokka sem færi í þessa vinnu þegar í stað. Sumir hafa lagt hana að jöfnu við öryggismálanefndina sem var hér til staðar forðum daga. Það er svo sem allt í lagi mín vegna. En þó að þessi þáltill. hafi ekki komið hér til 1. umr. þá þætti mér fróðlegt að heyra viðhorf hæstv. ráðherra til þessarar hugmyndar og til þessarar nálgunar að þessu mikilvæga viðfangsefni. Það er óhjákvæmilegt að rifja það upp enn og aftur að sú ákvörðun oddvita ríkisstjórnarinnar örfáum dögum fyrir kosningar að halda leyndu því alvarlega ástandi sem þá var fyrir dyrum, upplýsa það síðan, eins og hér hefur komið líka fram, í utanrmn. mörgum vikum síðar þegar málin voru með öðrum hætti komin á dagskrá, er auðvitað gagnrýni verð.

Ég vil líka rifja það upp að hæstv. ráðherra kom inn á það að hann hefur skipulega og ærlega gert utanrmn. grein fyrir stöðu mála eftir á, (RG: Eftir á.) nota bene, eftir á. Þá var því lýst yfir af hálfu fulltrúa Samfylkingarinnar að þrátt fyrir að upplýsingum hafi verið haldið leyndum þar til eftir á væri Samfylkingin tilbúin til þess að koma að þessu mikilvæga verkefni með ríkisstjórnarflokknunum með opnum hætti og án allra skuldbindinga. Þessu tilboði okkar var tekið býsna vel í upphafi en satt að segja hefur ekkert orðið þar úr efndum. Ég lít þannig til að þó að menn hafi deilt í þessum sal árum og áratugum saman um veru bandaríska varnarliðsins þarna syðra þá hafi með breyttum heimi hlutir æxlast á þann veg að við gætum, ef lögð væri í það vinna þvert á hina pólitísku flokka, þvert á stjórn og stjórnarandstöðu, náð um það sæmilega viðunandi samstöðu hvernig við vildum skilgreina varnir okkar og hvernig við vildum framkvæma þær. Ég held að það sé ríkisstjórninni hollt og gott veganesti að taka í þessa útréttu sáttarhönd.

[16:15]

Ég nefndi hér Robertson lávarð á nafn. Ég var að koma í morgun af fundi þar sem hann hélt kveðjuræðu sína fyrir hóp NATO-þingmanna í Bandaríkjunum. Ég rifja það upp hér að hæstv. utanrrh. þakkaði honum ítrekað stuðning sinn við stöðu varnarmála á Íslandi. Hann hins vegar og félagar mínir af vettvangi þingheims, m.a. flokksbróðir hæstv. ráðherra, Magnús Stefánsson, og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, við vorum þar kíktum á og tókum þátt í umræðum þar sem menn ræddu um stöðu NATO í þessum málum öllum sem hér hefur verið drepið á. Ég sakna þess líka á sama hátt að hæstv. ráðherra skautaði ansi hratt fram hjá NATO í stöðu hins alþjóðlega samfélags.

Ég kvartaði raunar yfir því hér á þingi fyrir örfáum dögum, í fjarveru hæstv. ráðherra, og innti hæstv. forsrh. eftir því af hverju dregist hefði úr hömlu að leggja fram staðfestingartillögu til þess að tryggja hinum nýju NATO-ríkjum, 7 talsins, fullgildingu og stuðning okkar Íslands. Mér fannst við með seinni skipunum í þeim efnum, ekki síst í ljósi þess að við höfðum uppi baráttu og stuðning við vinaríki okkar í Eystrasaltslöndunum. Það er hins vegar önnur saga og kannski ekki meginmálið en mér þætti fróðlegt af hæstv. ráðherra gæti hér í andsvari eða lokaræðu sinni farið aðeins yfir málefni NATO í þessu samhengi. Menn hafa rétt til að rifja upp eftir því sem ríkjum hefur fjölgað í NATO, raunar álfan öll komin þar mestan part innan dyra og ekki öll sagan sögð, hvernig hæstv. ráðherra sæi hlutverk NATO, til að mynda í Írak, í Miðausturlöndum. Það hefur réttilega verið rifjað hér upp að NATO kom mikið að friðarferlinu á Balkanskaga, einnig í Afganistan. Nú hins vegar stefnir í að Evrópuhraðliðið verði að veruleika, menn ræða það mjög mikið og eru ekki vissir um hvernig sú þróun muni verða. Á hvaða tímapunkti verður NATO gerandinn þegar upp koma vandamál sem þarf að taka á á alþjóðlegum vettvangi og í hvaða tilvikum er það Evrópusambandsherliðið? Er hægt að komast hjá ,,dúplíkasjón`` í þessu samhengi? Hver verður staða Íslands utan Evrópusambandsins þegar þetta verður allt orðið að veruleika? Hver verður staðan milli Evrópu og Bandaríkjanna? Þetta er allt mjög mikið áhyggjuefni og þetta gerði m.a. Íslandsvinurinn Robertson lávarður mjög að umtalsefni. Mér til fróðleiks, áður en þessi dagur er úti, óska ég eftir að hæstv. ráðherra fari aðeins yfir þessi mál, nokkur álitaefni. Mér þætti m.a. fróðlegt að hann lýsti viðhorfum sínum til þeirra kenninga sem mikið hefur verið haldið á lofti, að allt friðarferlið og allir möguleikar til friðar í Miðausturlöndum séu nánast í stóra stoppi, ekki vegna einlægs vilja alþjóðasamfélagsins til að leysa úr þeim málum, ekki eingöngu vegna þess að forustumenn Palestínuaraba annars vegar og Ísraela hins vegar ná greinilega ekki saman, heldur eingöngu vegna þess að Bandaríkjastjórn heldur að sér höndum og mun gera það fram yfir kosningarnar í Bandaríkjunum að ári. Það er auðvitað mjög alvarlegt að eitt heimsveldi geti nánast sett stóra stopp á allt friðarferlið. Evrópuvinkill NATO-ríkja hefur svo sem látið þetta yfir sig ganga, kannski ekki þegjandi alltaf en í raun. Það eru ýmis mál af þessum toga þar sem hagsmunir okkar, bæði þröngir og víðir, skipta mjög miklu máli og það skiptir máli hvernig við ætlum að nálgast þessi stóru viðfangsefni.

Ég vil, virðulegi forseti, að lyktum aðeins segja þetta: Ég get fyrir margra hluta sakir hælt hæstv. utanrrh. fyrir stóraukna víðsýni og Framsfl. hefur að minni hyggju á síðari árum undir hans stjórn gerst sá flokkur sem vill láta utanríkismál til sín taka og alþjóðasamfélagið. Hann gerði það ekki forðum daga og það þurfti að draga hann inn í 20. öldina upp úr 1990. Jafnaðarmenn komu að því verki og eru stoltir af að hafa hjálpað þeim yfir þá hindrun og til að átta sig á því að það væri eitthvað að gerast utan landhelginnar. Það gengur hægar með Sjálfstfl. en það kemur væntanlega.

Ég vil hins vegar undirstrika eitt algerlega hér að lokum. Þegar við ræðum um sjálfstæða utanríkisstefnu ræðum við það, jafnaðarmenn, að litlar þjóðir þurfa ekki að gera sig gildandi á hinum alþjóðlega vettvangi með því að vera í bisnessnum kaup/kaups heldur hafa þjóðir á borð við Norðmenn komið mjög sterkt inn í friðarferlið, m.a. í Miðausturlöndum á árum áður, og nú er það Sri Lanka vegna þess að þeir hafa staðið fast í báða fætur. Það er mjög mikilvægt að halda því til haga og einnig hinu, svo að ég ítreki það, að þegar við samfylkingarmenn höfum uppi gagnrýni á einstakar ákvarðanir Bandaríkjanna erum við að tala um einstakar ákvarðanir Bandaríkjastjórnar. Gleymum því ekki að umræðan í Bandaríkjunum, t.d. varðandi stöðu mála í endurreisninni í Írak og hvað þá innrásirnar sjálfar, er ekki beinlínis eintóna í afstöðu sinni. Flest forsetaefni Bandaríkjanna hafa uppi mjög harða gagnrýni svipaða þeirri sem við höfum lýst í þeim efnum. Við lýsum andúð við þessa afstöðu Bush-stjórnarinnar og það væri þess vegna líka fróðlegt að hæstv. ráðherra lýsti afstöðu sinni og íslenskra yfirvalda til hinnar yfirlýstu stefnu Bush-stjórnarinnar, Bandaríkjastjórnar, þar sem þeir telja hægt að réttmæta árásarstríð, pre-emptive war eins og það er kallað á enskri tungu ef stjórnvöld telja hagsmunum sínum ógnað, með öðrum orðum ætla þeir að gefa út opinn tékka. Er þetta eitthvað sem íslensk stjórnvöld skrifa upp á, eins og Íraksstríðið forðum?