Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 13. nóvember 2003, kl. 16:27:06 (1641)

2003-11-13 16:27:06# 130. lþ. 27.1 fundur 142#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 130. lþ.

[16:27]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Við breytum auðvitað ekki þeim ákvörðunum sem ríkisstjórnin tók á sínum tíma um þessi efni. Ég held að það sé alveg ástæðulaust fyrir hæstv. ráðherra að láta þykkna í sér vegna þessa. Við höfum þau sjónarmið uppi sem ég lýsti með einlægum hætti að við hefðum talið það eðlilegt strax á fyrsta degi að gera trúnaðarmönnum stjórnmálaflokkanna á Alþingi, eftir efnum og ástæðum hugsanlega líka utanrmn., grein fyrir stöðu málsins. Það gæti hafa verið þannig, frú forseti, að fulltrúar stjórnarandstöðunnar hefðu getað lagt í þetta púkk. Það eru fleiri sem eru í samböndum erlendis en hæstv. ráðherra, með fullri virðingu fyrir honum, þannig að við erum að ræða um gífurlega hagsmuni. Ég vil ekki halda því fram að þarna hafi verið um þrönga kosningahagsmuni að ræða. Það má velta því á marga vegu hvernig slík umræða hefði velkst og þróast. Ég get ekki fullyrt um það frekar en hæstv. ráðherra. En ég tel bara mikilvægt að trúnaður ríki milli stjórnar og stjórnarandstöðu þegar alvarleg mál af þessum toga koma upp.