Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 13. nóvember 2003, kl. 16:36:00 (1647)

2003-11-13 16:36:00# 130. lþ. 27.1 fundur 142#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 130. lþ.

[16:36]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Frú forseti. Hefði hv. þm. lagt við hlustir þegar ég var að fara yfir þessi verkefni næstu framtíðar hefði hún fengið svar við athugasemd sinni. Ég var einmitt að vekja athygli á því hvernig NATO sem varnarbandalag ætti og gæti komið að friðargæslu eins og þeir hafa gert á Balkanskaga árum saman, eins og þeir eru að gera í Afganistan, hvort þeir hefðu til að mynda hlutverk á þessu meinta yfirráðasvæði Bandaríkjanna í Miðausturlöndum, hvort og hvernig við ætlum að koma í auknum mæli inn í endurreisnarstarfið í Írak. Ekki veitir af að Bandaríkjastjórn og félag hinna viljugu fái þar aðstoð. Það voru einmitt þessi framtíðarverkefni í núi og næstu framtíð sem ég vakti máls á. Ég reifaði hér m.a. hvernig umræðan fór fram á vettvangi NATO-þingmanna og einnig hvernig ég sé þá hluti gerast.

Ég hef út af fyrir sig ekki nein algild svör við því, ekki frekar en NATO sjálft, en þetta eru þau verkefni sem menn eru að ræða á alþjóðavettvangi og þess vegna kallaði ég eftir því að þau yrðu tekin á dagskrá líka á þessum fundi. Ég vænti þess að hæstv. ráðherra geri það með skeleggum og ítarlegum hætti í lok umræðunnar.