Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 13. nóvember 2003, kl. 16:55:15 (1651)

2003-11-13 16:55:15# 130. lþ. 27.1 fundur 142#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 130. lþ.

[16:55]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Bandaríkin eru um margt mjög merkileg þjóð en hjá henni er ýmislegt sem ekki er að mínu skapi. Ég hef nokkuð dáðst að þessari þjóð en ég mundi aldrei nokkurn tíma fylgja henni í villu og um það hafa umræðurnar í dag snúist, að við erum ósammála mati ríkisstjórnarinnar á því að það hafi verið rétt að fylgja þessum 30 viljugu þjóðum.

Af því að þingmaðurinn talaði um 50 ára vináttusamband þá ætla ég að segja við þingmanninn að vinátta er gagnkvæmt fyrirbæri. Og það sem ég hef gagnrýnt mest í allri þessari umræðu er að þessi vinaþjóð, eftir 50 ára samvinnu, eftir 50 ára dvöl í landinu, skuli koma á mjög viðkvæmum tíma með tilkynningu til íslenskra stjórnvalda og kynna aðgerðir sem er algjörlega ómögulegt að bregðast hratt við. Það er svo alveg annað mál að ríkisstjórnin, blessuð, skuli hafa látið reka á reiðanum í að skapa ný atvinnutækifæri á Suðurnesjum þar sem mátti kannski lesa í ýmislegt sem gerst hefur á liðnum árum að einn góðan veðurdag gæti einmitt þetta gerst af hálfu vinaþjóðarinnar. Ef það er eitthvað sem farið hefur í taugarnar á mér í sambandi við þetta bréf í vor og allan eftirmála þess, þá er það það að við skulum láta það yfir okkur ganga að þjóð sem við höfum öll litið á sem vinaþjóð, vinaþjóð þó að við gagnrýnum að hún færi inn í Írak, skuli bara hafa sent bréf og sagt: Við erum að fara, við ætlum að gera þetta eftir mánuð.

Svona hegðar maður sér ekki ef maður er kurteis og svona hegðar maður sér alls ekki ef maður er í vináttusamstarfi.