Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 13. nóvember 2003, kl. 17:02:17 (1655)

2003-11-13 17:02:17# 130. lþ. 27.1 fundur 142#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÁF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 130. lþ.

[17:02]

Ásgeir Friðgeirsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil árétta það sem hér hefur komið fram, að Samfylkingin leggur fyrst og fremst áherslu á sjálfstæði í utanríkisstefnu. Sjálfur tel ég mig til vina Bandaríkjanna en það þýðir ekki að ég fylgi í blindni öfgum Bush-stjórnar, Rumsfelds og haukanna í Hvíta húsinu. Ég fylgi ekki þeim öfgum fremur en meiri hluti bandarísku þjóðarinnar.

Aðalástæða þess að ég kem hingað upp er vegna athugasemda sem komu fram þar sem orð mín voru túlkuð á þann veg að ég teldi að við ættum að ganga í Evrópusambandið til þess að auðga viðskipti við fátækar þjóðir. Þar held ég að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson hafi einmitt verið með þessi heyrnartæki á sér sem hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir talaði um. Ég var ekki að tala um aðild okkar að Evrópusambandinu. Ég var að vísa í samning sem Evrópusambandið hefur við 49 fátækustu ríki heims. Sá samningur heimilar frjálsan innflutning á öllum vörum nema stríðsvopnum frá þessum tilteknu ríkjum. Þeir fyrirvarar sem þar eru eru fáir og tímabundnir.

Hvernig hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson komst að þeirri niðurstöðu að ég væri með þessu að mæla með aðild að Evrópusambandinu er mér ráðgáta.