Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 13. nóvember 2003, kl. 17:26:06 (1660)

2003-11-13 17:26:06# 130. lþ. 27.1 fundur 142#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 130. lþ.

[17:26]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Í tilefni af síðasta hluta ræðu þingmannsins þá hlýt ég að spyrja: Er þingmanninum ekki ljóst að Bandaríkin fluttu varnarlínuna heim að ströndum Bandaríkjanna og Kanada fyrir tveimur árum? Er þingmanninum ekki ljóst að þoturnar voru færðar undir stöðina á Suður-Englandi fyrir tæpu ári eða svo? Ég man ekki alveg tímasetningarnar. Á það ekki að hafa verið flestum ljóst sem fylgjast með utanríkismálum og lesa í bandaríska utanríkispólitík að þessar aðgerðir voru af því að menn ákváðu að hugsa meira um sjálfa sig og minna um hina? Mátti ekki ganga út frá því að á einhverjum tíma, fyrr en seinna, yrðu þoturnar hér fluttar til Suður-Englands?

Erum við ekki alltaf að tala um varnarliðið í eintölu á meðan við vitum að það er flotinn sem hér er fastur en flugherinn hins vegar með nokkrar þotur, og færri en fleiri? Ætli það séu fleiri en fjórar? Það skiptir okkur máli. Í því dæmi skiptir að sjálfsögðu mestu að með þotunum fylgja þyrlurnar, björgunarþyrlur sem hafa verið liður í björgunarkerfi okkar, mikilvægur þáttur. Það veit hvert mannsbarn og hefur verið ljóst í áratug, frá því að Bandaríkjamenn ætluðu síðast að hverfa á brott og hættu við, að við mundum þurfa að bæta við þyrluflota okkar. Veit ekki þingmaðurinn, þó við viljum ekki blanda saman atvinnumálum og varnarmálum, að það mun kosta okkur mikla fjármuni um leið og bara þyrlurnar fara.

En það er ákveðinn vandi í þessari umræðu. Sumt á helst ekki að segja og öðru á alltaf að halda fram, a.m.k. ef maður er stjórnarliði. Ég hlýt að spyrja þingmanninn að þessu vegna þess að hann ýjaði að þessum hlutum en sagði ekki hreint út.