Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 13. nóvember 2003, kl. 17:28:13 (1661)

2003-11-13 17:28:13# 130. lþ. 27.1 fundur 142#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 130. lþ.

[17:28]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er hárrétt sem hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir nefnir, að auðvitað hafa ýmsar breytingar gengið yfir hvað varðar áherslur Bandaríkjamanna sjálfra í utanríkisstefnu þeirra. Það hafa orðið breytingar á herstjórninni sem varða þetta mál, meira að segja mál eins og stjörnustríðsáformin og ýmislegt með skírskotun til þeirra skiptir máli. Síðast en ekki síst hafa áherslur Bandaríkjamanna breyst í tengslum við endurskoðun á allri þeirra framgöngu að þessu leyti vegna áherslunnar á baráttuna gegn hryðjuverkum. Það er t.d. vitað að Rumsfeld og hans menn eru komnir á þá skoðun að það sé alger vitleysa að halda úti herstöðvum af því tagi sem Keflavíkurstöðin er. Það minnir kannski á Atlantshafstengslin, ef svo má að orði komast, og fleira í þeim dúr sem vissulega væri hægt að ræða ef tímin leyfði. En maður hefur takmarkaðan tíma.

Mér finnast lýsandi fyrir ástandið þessar fréttir, sem voru mér ekki miklar fréttir en þóttu stórfréttir á einhverjum fjölmiðli, að þoturnar væru óvopnaðar og hefðu að mestu verið undanfarin ár. Er það ekki nokkuð lýsandi fyrir ástandið, hvernig Bandaríkjamenn meta stöðuna? Það er bara járnið uppi í loftinu. Það er bara stálið, svolítið af bensíni en engin vopn. Hættan er ekki meiri en svo að mati Bandaríkjamanna. Þeir halda flugmönnum í þjálfun og eru aðallega að ónáða Akureyringa. Það er allur tilgangurinn með þessu.

Að lokum finnst mér þetta eiga að koma niður á grundvallaratriðin. Viljum við eða viljum við ekki reyna að halda í erlendan her í landinu þegar svo er komið að hann vill sjálfur fara? Í okkar tilviki, Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, er svarið alveg skýrt. Við tökum því fagnandi að þessi her er tilbúinn til að fara. Við viljum fara í viðræður um hvernig það gerist.