Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 13. nóvember 2003, kl. 17:30:20 (1662)

2003-11-13 17:30:20# 130. lþ. 27.1 fundur 142#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 130. lþ.

[17:30]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Svarið við þessu er að við verðum að skilgreina varnarþarfir okkar. Við verðum að fara að skilgreina öryggis- og utanríkispólitík okkar betur. Einungis með því að fara í slíka skilgreiningu --- Samfylkingin hefur reyndar lagt það til og komið hefur fram hér í dag að hún á þingmál um að fara í þessa vinnu --- bara þannig getum við vitað hvernig við viljum tryggja öryggishagsmuni okkar.

Hæstv. utanrrh. hefur beinlínis sagt í ræðu á þinginu að ekki stafi lengur ógn af hálfu annarra ríkja eða árása annarra ríkja því ógnin sé hryðjuverk. Auðvitað vitum við öll að núverandi varnir eru kannski ekki akkúrat varnir gegn hryðjuverkum. Hins vegar verðum við að byrja á því að skilgreina varnarþarfir okkar og öryggismálapólitík til að vita hvers konar samband við viljum hafa við aðrar vinaþjóðir, því að þær eru líka fleiri en sú stóra sem mér hefur nú alltaf verið hlýtt til, þó ég gagnrýni hana líka þegar hún á það skilið.

Svo að lokum, virðulegi forseti, af því að ég kom í andsvar við hv. þm. um þessi mál af því að mér varð nokkuð heitt í hamsi: Það er alveg óþolandi í þessari umræðu að hæstv. utanrrh. verði að koma hér í andsvör, stutt andarteppuandsvör við þingmenn, og að ekki sé hægt að brjótast inn í þá umræðu og að maður þurfi kannski að vera að tala svona í kross til þess e.t.v. að kalla fram viðbrögð af hálfu hæstv. utanrrh. í lokaræðu hans því það sem við hv. þingmenn erum hér að ræða er vissulega grundvallaratriði í því hvernig varnir Íslands eiga að vera, við hverja á að vera í vináttusamstarfi o.s.frv.