Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 13. nóvember 2003, kl. 17:32:19 (1663)

2003-11-13 17:32:19# 130. lþ. 27.1 fundur 142#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 130. lþ.

[17:32]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Frú forseti. Ég er út af fyrir sig sammála því að á hverjum tíma er æskilegt að menn fari yfir það hvernig þeir sjá fyrir sér, hvort sem við köllum það öryggisgæslu, varnarþarfir, eftirlit eða löggæslu, landhelgisgæslu eða hvað það nú er. Og æskilegt er auðvitað að menn reyni að gera það á forsendum sem eru eins faglegar og þverpólitískar og unnt er þannig að ekki sé a.m.k. deilt um faglegu atriðin í þessu. Þessi mál hafa verið í þeim farvegi að undanförnu að það hefur fyrst og fremst verið utanrrn. sjálft sem hefur verið að gera skýrslur um slíka hluti. Hér hefur ekki starfað þverpólitísk öryggismálanefnd eða eitthvað því um líkt eins og var á níunda áratug síðustu aldar og Alþingi hefur ekki komið mikið að þessu nema í því formi að fá þau gögn sem aðrir hafa unnið upp í hendurnar á því. Að þessu mætti því vel standa öðruvísi.

Ég fæ engan veginn séð að nokkur rök liggi fyrir því að vörnum landsins sé alveg lífsnauðsynlegt að hér séu nákvæmlega fjórar vopnlausar F-15 þotur. Mér finnst það í raun undirstrika fáránleikann þegar reynt er að halda slíku fram við mann.

En ef við tölum um heiminn eins og hann lítur út í dag og hvað við teljum mikilvægt til þess að hér getum við búið við það dagsdaglega öryggi sem við teljum okkur þurfa þá held ég að nefna megi hluti eins og fullnægjandi öryggisgæslu á flugvöllum og við hafnir landsins, þar sem millilandaumferð er, landhelgisgæslu og eflda björgunarstarfsemi. Þetta eru hlutir sem mér finnast eðlilega koma upp á borðið um leið og talið berst að því að bandaríski herinn sé að draga saman eða hverfa í burtu og svo auðvitað síðast en ekki síst að snúa sér að því að efla atvinnulíf á Suðurnesjum og standa við bakið á því svæði þegar það verður augljóslega fyrir miklum áhrifum af þessum breytingum. En í mínum huga er allt tal um eiginlegar hervarnir á Íslandi út í loftið. Það er engin þörf fyrir þær og þær eiga engar að vera. Það á að vera öryggisgæsla þannig að ekki geti einstakir ribbaldar komið og tekið landið í stíl Jörundar hundadagakonungs, en ekkert umfram það. (Forseti hringir.) Enda er herstyrkur af þeirri stærðargráðu að við gætum varist alvöruárás herveldis bara hvort sem (Forseti hringir.) er ekkert inni í myndinni.