Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 13. nóvember 2003, kl. 17:56:27 (1668)

2003-11-13 17:56:27# 130. lþ. 27.1 fundur 142#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 130. lþ.

[17:56]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Við Íslendingar vorum fyrstir Norðurlandaþjóða til að lýsa því yfir að okkur þætti eðlilegt að Indland ætti fasta setu í öryggisráðinu, af því að það er nú oft verið að tala um að við sýnum lítið sjálfstæði. Það var afstaða sem við tókum að vel yfirlögðu máli og töldum að væri rétt ákvörðun. Síðan hafa aðrar þjóðir tekið sömu afstöðu. En við erum vön að ræða mikið við Norðurlandaþjóðirnar um ýmis mál og sækjum að sjálfsögðu í smiðju þeirra og margra annarra þjóða að því er varðar öryggisráðið. Við erum að kynna okkur hvað ýmsar þjóðir hafa gert í sambandi við þessi mál og reyna að meta það hvað er lágmark af okkar hálfu.

Það er alltaf skammt á milli þess sem menn kalla áróður og að koma naðsynlegum upplýsingum á framfæri. Það er mikilvægt að menn þekki til okkar mála, menn þekki til þess hver við erum, fyrir hvað við stöndum og hvaða afstöðu við höfum til margvíslegra mála. Þessu verðum við að koma á framfæri, við verðum að koma því á framfæri í rituðu máli að einhverju leyti, með samtölum og það verður að hamra á því ávallt í öllum samskiptum sem við eigum við þessar þjóðir. Það er það sem við erum að undirbúa og teljum að það sé mjög mikilvægt að koma því á framfæri, jafnvel þó að það leiði til þess að við verðum ekki aðilar að öryggisráðinu. En auðvitað gerum við það með það í huga að við vinnum þá baráttu.