Bréf forsætisráðuneytis til Alþingis

Mánudaginn 17. nóvember 2003, kl. 15:03:30 (1676)

2003-11-17 15:03:30# 130. lþ. 28.91 fundur 154#B bréf forsætisráðuneytis til Alþingis# (aths. um störf þingsins), HHj
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 130. lþ.

[15:03]

Helgi Hjörvar:

Virðulegur forseti. Það voru sagðar fréttir af því í síðustu viku að ríkisstjórnin og fjmrn. hefðu sent út tilskipanir til stofnana ríkisins um að þær skyldu ekki snúa sér að eigin frumkvæði til fjárln. Alþingis. Er það mál út af fyrir sig sérmál sem ég vona að verði tekið til sérstakrar umræðu þó að síðar verði. Ég kaus hins vegar að kanna hversu langt framkvæmdarvaldið hefði í þessu gengið og gerði fyrirspurn til þingsins á föstudag um hvort því hefðu borist slík tilmæli frá framkvæmdarvaldinu. Það er skemmst frá því að segja, virðulegur forseti, að ég hef hér í höndunum bréf forsrn. ásamt með bréfi fjmrn. til skrifstofu Alþingis þar sem þeim tilmælum er beint til Alþingis að það komi áfram tilmælum til stofnana Alþingis um það að Alþingi Íslendinga og stofnanir þess leiti ekki að eigin frumkvæði til fjárln. Alþingis vegna fjárlagagerðar.

Virðulegur forseti. Mér er kunnugt um að hæstv. forsrh. vill gjarnan vera talinn fyndinn en ég veit ekki hvers konar grín þetta er eiginlega. Hvað á framkvæmdarvaldið með það að beina þeim tilmælum til löggjafarvaldsins að það ræði ekki við sína eigin fjárln.? Ég trúi því og treysti að þetta bréf hafi verið sent út fyrir misgáning af hálfu forsrn. því að hversu mjög sem menn langar til að vera kóngar á Íslandi er á um það kveðið í stjórnarskránni að hér sé valdinu skipt milli framkvæmdarvalds, dómsvalds og löggjafarvalds og ég get ekki skilið í því að framkvæmdarvaldið sendi löggjafanum erindi eins og Alþingi Íslendinga sé eins og hver önnur undirstofnun forsrn. Það er algerlega skýrt samkvæmt 10. gr. þingskapa og samkvæmt 21. gr. laga um fjárreiður ríkisins með hvaða hætti fjárlagatillögur eru gerðar af hálfu Alþingis. Ég hlýt að spyrja hæstv. forsrh.: Hvaðan koma honum valdheimildir til þess að senda Alþingi tilmæli af þessu tagi?