Bréf forsætisráðuneytis til Alþingis

Mánudaginn 17. nóvember 2003, kl. 15:09:01 (1681)

2003-11-17 15:09:01# 130. lþ. 28.91 fundur 154#B bréf forsætisráðuneytis til Alþingis# (aths. um störf þingsins), LB
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 130. lþ.

[15:09]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir að taka þetta mál upp í þinginu því að þetta er virkilega umræða sem heyrir undir störf þingsins. Við hljótum að kalla eftir því hvað virðulegum forseta Alþingis finnst um það þegar framkvæmdarvaldið sendir erindi um að tilteknar stofnanir sem undir þingið heyra skuli ekki bera sig upp við fjárln. Alþingis. Við hljótum að kalla eftir því, virðulegi forseti, af því að fjárveitingavaldið er enn hjá Alþingi, a.m.k. að forminu til, hver afstaða virðulegs forseta sé til svona skeyta. Í mínum huga er alveg deginum ljósara að það er verið að senda tilmæli um að þessar stofnanir tjái sig ekki við fjárln. Og ég trúi því ekki öðru, virðulegur forseti, sem ég veit að hefur setið lengi á þingi og þekkir vel til starfa þess en að hæstv. forseti vilji veg þingsins sem mestan og tryggja að það vald sem heyrir til þingsins verði ekki af því tekið á þennan hátt.

Því kalla ég eftir því, virðulegi forseti, að forseti gefi okkur, þingheimi, skýringar eða greini frá afstöðu sinni til þessa bréfs því að mér fyndist það vera merkilegt innlegg í þessa umræðu.