Bréf forsætisráðuneytis til Alþingis

Mánudaginn 17. nóvember 2003, kl. 15:13:33 (1684)

2003-11-17 15:13:33# 130. lþ. 28.91 fundur 154#B bréf forsætisráðuneytis til Alþingis# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 130. lþ.

[15:13]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er kannski á mörkunum að þetta mál fái þá yfirveguðu umfjöllun og athygli sem því ber og það á skilið. Þetta er angi af mjög stóru máli sem hér hefur oft borið á góma undanfarin ár þar sem tilhneigingar framkvæmdarvaldsins eru allar í eina átt, og þær hinar sömu, þ.e. að halda upplýsingum frá Alþingi. Þetta hefur ítrekað og með ýmsum hætti birst hér og orðið tilefni deilna á undanförnum árum, m.a. og ekki síst í tengslum við fjárlagagerð. Þess eru dæmi, og það muna menn, að fjárln. hefur þurft að fara í harðar aðgerðir til þess að draga upp úr ráðuneytum upplýsingar, t.d. sundurliðun á ákveðnum þáttum. Ég nefni þar sem dæmi sundurliðun á kostnaði við einkavæðingu, hverjir voru ráðgjafar ríkisstjórnar í slíkum tilvikum og hve mikla peninga þeir fengu. Þar hlupu upphæðir á tugum eða hundruðum milljóna kr. Engu að síður var einbeitt ætlun framkvæmdarvaldsins að halda slíkum upplýsingum leyndum fyrir Alþingi, fyrir fjárveitingavaldinu.

Það hefur borið í vaxandi mæli á því á undanförnum árum að fyrirspurnum er svarað seint, illa eða jafnvel alls ekki.

Í þriðja lagi er það vel þekkt, og ekki síst var það upp tekið í menntamálaráðherratíð fyrrv. menntmrh. Björns Bjarnasonar, að banna forustumönnum undirstofnana undir ráðuneytinu að koma og kynna málefni sín með sjálfstæðum hætti fyrir fjárln. Þannig er í raun og veru verið að reyna að gera hið formlega fjárveitingavald Alþingis að forminu einu. Það er verið að gera fjárlögin að einhvers konar stimpli en í reynd sé það tilskipunarvald ráðuneyta sem ákveði fjárreiður ríkisins á hverju ári. Það þarf náttúrlega ekki að fara um það mörgum orðum hversu stórhættulegt það er ef framkvæmdarvaldið kemst upp með slík vinnubrögð. Hér er svo sannarlega, herra forseti, ástæða til að taka málin upp til ítarlegrar og rækilegrar umræðu. Vilja menn halda áfram að leyfa hlutunum að þróast inn á þetta óheillaspor?