Bréf forsætisráðuneytis til Alþingis

Mánudaginn 17. nóvember 2003, kl. 15:19:43 (1688)

2003-11-17 15:19:43# 130. lþ. 28.91 fundur 154#B bréf forsætisráðuneytis til Alþingis# (aths. um störf þingsins), EOK
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 130. lþ.

[15:19]

Einar Oddur Kristjánsson:

Herra forseti. Ég held að það sé a.m.k. mjög orðum aukið, það vandamál sem hér hefur skapast. Þessi beiðni ríkisstjórnarinnar er ekkert ný af nálinni. Fyrir um fjórum árum kom svona beiðni líka. Þá svöruðu bæði formaður og varaformaður því mjög skýrt að þeir hefðu ekkert út á það að setja, hins vegar mundi nefndin alltaf, undir öllum kringumstæðum, kalla á þá sem óskað væri eftir að kæmu fyrir nefndina. Það var gefið út plagg um það.

Í haust gerðist nákvæmlega það sama. Okkur var gerð grein fyrir þessu, mér og formanni nefndarinnar. Við svöruðum nákvæmlega eins, að við hefðum ekkert út á þetta að setja. Hins vegar höfum við báðir gefið út yfirlýsingar um það að að sjálfsögðu mundi nefndin kalla hverja þá fyrir sem væri beðið um að kæmu til hennar. Ef stjórnarandstaðan er svona áfram um það get ég ekki séð annað en að við munum gera það, það er nógur tími til þess. Menn geta þá setið á kvöldfundum eða helgarfundum. Menn geta yfirheyrt og fengið alla menn til viðræðu við nefndina sem þeir vilja fá.

Það er því ekkert vandamál á ferðinni, þetta mun allt ganga ljúflega fyrir sig eins og fyrri daginn. Það er eindrægni í nefndinni, hún stendur alveg saman um að gera þetta svona þannig að hér hefur ekkert slys átt sér stað. Það er ekkert til að hneykslast á. Þetta er í mjög góðum farvegi. (Gripið fram í.)