Flutningskostnaður

Mánudaginn 17. nóvember 2003, kl. 15:22:08 (1689)

2003-11-17 15:22:08# 130. lþ. 28.1 fundur 147#B flutningskostnaður# (óundirbúin fsp.), KLM
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 130. lþ.

[15:22]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Um haustið 2001 var rætt í ríkisstjórn um þann mikla flutningskostnað sem er að sliga atvinnurekstur, skekkja samkeppnishæfni atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni gagnvart höfuðborgarsvæðinu og stórhækka vöruverð til almennings.

Ríkisstjórnin ákvað að skipa nefnd sem skyldi búa til skýrslu --- sem tók 15 mánuði og ekkert nýtt kom fram í --- og skila tillögum til ríkisstjórnar. Þessari skýrslu var vísað til Byggðastofnunar til frekari úrvinnslu og aðgerða og síðan átti Byggðastofnun að skila til ríkisstjórnar. Þetta er sem sagt orðið tveggja ára ferli og það er ljóst að ríkisstjórnin er nú að hækka þungaskatt um 8% sem mun fara beint út í verðlagið og hækka flutningskostnað strax í janúar.

Út af þessu sem ég hef hér rakið og út af svörum hæstv. ráðherra byggðamála, Valgerðar Sverrisdóttur, bæði hér í þinginu í fyrirspurnum um þessa skýrslu og um hvað liði aðgerðum til að lækka flutningskostnað og efla samkeppnishæfni fyrirtækja á landsbyggðinni gagnvart höfuðborgarsvæðinu, vil ég spyrja hæstv. ráðherra byggðamála:

1. Hvað líður aðgerðum og hvenær má vænta tillagna um aðgerðir í þá átt að lækka flutningskostnað?

2. Er gert ráð fyrir einhverjum upphæðum í fjárlögum til að taka þátt í þessari aðgerð?