Breyting á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Mánudaginn 17. nóvember 2003, kl. 15:30:29 (1695)

2003-11-17 15:30:29# 130. lþ. 28.1 fundur 148#B breyting á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (óundirbúin fsp.), ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 130. lþ.

[15:30]

Þuríður Backman:

Hæstv. forseti. Hæstv. fjmrh. hefur lagt fram á Alþingi frv. um breyting á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og gert grein fyrir ástæðu þess að hann leggur þetta fram. Hæstv. ráðherra telur m.a. að með þessari breytingu sé verið að færa réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins að hinum almenna vinnumarkaði.

Hæstv. forseti. Um nokkurt árabil hefur verið hið ágætasta samstarf á milli opinberra starfsmanna, BHM, BSRB og Kennarasambands Íslands um réttindi og launakjör. Því þykir mér og mörgum fleirum það skjóta skökku við að leggja þetta frv. fram án samráðs við opinbera starfsmenn, sérstaklega þegar tekið er tillit til þess að það er verið í fullu samráði að vinna að endurskoðun á lögum um kjarasamninga milli þessara sömu aðila. Því vil ég spyrja hæstv. fjmrh. að því hvers vegna hann tekur þessi atriði út, án samráðs við opinbera starfsmenn og leggur hér fram frv. sem skerðir réttindi opinberra starfsmanna. Því sannarlega er verið að skerða atvinnuöryggi opinberra starfsmanna. Ef verið er að vísa til þess að opinberir starfsmenn hafi náð svipuðum launakjörum og á hinum almenna vinnumarkaði og því sé hægt að samræma þeirra réttindi, þá er það ekki rétt, hæstv. forseti. Það er enn þá mikill launamunur á milli opinberra starfsmanna og á hinum frjálsa vinnumarkaði þegar tekið er tillit til menntunar og ábyrgðar í starfi.