Landhelgisgæslan

Mánudaginn 17. nóvember 2003, kl. 15:39:12 (1701)

2003-11-17 15:39:12# 130. lþ. 28.1 fundur 149#B Landhelgisgæslan# (óundirbúin fsp.), GHall
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 130. lþ.

[15:39]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Ég leyfi mér að leggja fyrirspurn fyrir hæstv. dómsmrh. sem lýtur að lögum Landhelgisgæslu sem eru frá apríl 1967. Margt hefur breyst síðan þessi lög voru sett og því ekki óeðlilegt þótt spurt sé hvort hugað sé að endurskoðun þeirra í bráð, jafnframt líka um smíði nýs varðskips í ljósi þess að þau þrjú skip sem nú eru í notkun hjá Landhelgisgæslunni eru allverulega komin til ára sinna. Óðinn er 43 ára, varðskipið Ægir 35 ára og Týr 28 ára. Þegar varðskipið Týr kom til landsins var það alveg ljóst að miðað við stærð flotans var það skip of lítið. Það er því mjög nauðsynlegt að þessir þættir séu skoðaðir, jafnframt flugmál Landhelgisgæslunnar og önnur starfsemi í breyttu umhverfi frá lagasetningu Gæslunnar fyrir 36 árum. Einnig aðrir öryggisþættir sem Gæslan hefur þurft að sinna, bæði með ströndum fram og þegar þurft hefur að kalla til hennar til starfa þá vá hefur borið að dyrum í hinni dreifðu byggð. Og ekki hvað síst í ljósi þeirra atburða sem gerðust 11. september 2001 í auknum kröfum um öryggi og eftirlit með ströndum fram.