Landhelgisgæslan

Mánudaginn 17. nóvember 2003, kl. 15:40:43 (1702)

2003-11-17 15:40:43# 130. lþ. 28.1 fundur 149#B Landhelgisgæslan# (óundirbúin fsp.), dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 130. lþ.

[15:40]

Dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Þessi mál eru til skoðunar og málefni Landhelgisgæslunnar eru til athugunar. Það hefur verið sérstakur starfshópur starfandi varðandi fjármál Gæslunnar á þessum vetri og hefur hann farið yfir starfsemi Gæslunnar með hliðsjón af fjárveitingum og öðrum slíkum þáttum. En það er ljóst sem fram kom í fyrirspurninni að löggjöfin er síðan á 7. áratugnum og starfsemi Gæslunnar hefur breyst frá því að þau lög voru sett og nauðsynlegt að huga að nýjum markmiðum og nýrri lagasetningu fyrir Landhelgisgæsluna.

Það hefur komið fram í fréttum að af hálfu Landhelgisgæslunnar eru uppi áform um að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi og sérfræðingar á vegum Gæslunnar kunna að verða kallaðir til alþjóðlegs samstarfs. Verksvið Gæslunnar er því einnig að taka breytingum að þessu leyti og nauðsynlegt að huga að lagaheimildum þegar rætt er um slíkt alþjóðlegt samstarf sem Gæslan hefur ekki tekið þátt í.

Varðandi smíði nýs varðskips þá vísa ég til þess sem kom fram í stefnuræðu forsrh. þegar hann kynnti stefnu ríkisstjórnarinnar í haust og lét þess getið að það yrði ráðist í smíði nýs varðskips og einnig hugað að endurskoðun á uppbyggingu á flugflota Gæslunnar. Þessi mál eru því öll í skoðun og verður vonandi tækifæri til þess síðar á þinginu í vetur að ræða málefni Gæslunnar frekar.