Nám í hagnýtri fjölmiðlun

Mánudaginn 17. nóvember 2003, kl. 15:43:16 (1704)

2003-11-17 15:43:16# 130. lþ. 28.1 fundur 150#B nám í hagnýtri fjölmiðlun# (óundirbúin fsp.), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 130. lþ.

[15:43]

Hjálmar Árnason:

Hæstv. forseti. Fjölmiðlun er mikilvæg í okkar samfélagi sem ég geri ráð fyrir að margir hér inni geri sér grein fyrir. Í þeirri grein eins og öðrum er mjög mikilvægt að sinna undirbúningi, faglegum kröfum og ekki síst menntun. Lengi vel var það þannig að formleg menntun í fjölmiðlun var ekki til staðar á Íslandi en að undanförnu hefur verið unnið mikið og gott starf í þeim efnum þannig að fjölmiðlun er komin á háskólastig. Fyrir um það bil þremur árum mun hafa verið opnað fyrir starfsbrautir á framhaldsskólastigi í hagnýtri fjölmiðlun. Töluvert af nemendum sótti í það og var mjög ánægjulegt að sjá framhaldsskólana bregðast við kalli tímans.

Útfærsla á hagnýtri fjölmiðlun í framhaldsskólum mun hafa verið unnin af starfsgreinaráði eins og lög gera ráð fyrir og nú mun vera um það bil hálft ár síðan fyrsti nemandinn lauk hinu eiginlega skólanámi í hagnýtri fjölmiðlun.

Það mun þó enn vera ýmislegt óljóst með lok á þessari námsbraut og lýtur að starfsnámi, að ljúka hinu formlega námi með starfsnámi, verkþjálfun á vinnustöðum, þar sem hefur gengið treglega að fá verknámsþjálfun og verknámspláss fyrir nemendur. Þetta hefur m.a. leitt til þess að það er ákveðin óvissa uppi um stöðu þeirra nemenda sem hafa lokið námi sínu. Ég leyfi mér því að beina þeirri spurningu til hæstv. menntmrh. hver staða þessa máls sé núna.