Starfslokasamningar

Mánudaginn 17. nóvember 2003, kl. 15:51:07 (1709)

2003-11-17 15:51:07# 130. lþ. 28.1 fundur 151#B starfslokasamningar# (óundirbúin fsp.), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 130. lþ.

[15:51]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. félmrh. vegna rangra eða misvísandi ummæla sem hann viðhafði á Alþingi þegar við ræddum starfslokasamninga tveggja ríkisstofnana. Hæstv. ráðherra furðaði sig á því að hann skyldi kallaður til og spurði eitthvað í þá veru hvaða tilgangi það þjónaði að koma með inn í þingsal málefni einstaklings úti í bæ sem hefði látið af störfum fyrir ríkið í sátt og samlyndi við félmrn. og það hefði verið gert upp við þann einstakling.

Nú hefur það komið fram ítrekað í fjölmiðlum að það var ekki í sátt og samlyndi sem þessi einstaklingur lét af störfum fyrir ríkið og það var ekki búið að gera upp við þennan einstakling eins og hæstv. ráðherra kallaði hana hér í umræðunni. Ég spyr: Var um einhvern misskilning að ræða þegar ráðherrann gaf þessar röngu upplýsingar í þinginu? Ráðherranum hlýtur að vera ljóst að það er mjög alvarlegt ef ráðherra gefur þinginu rangar upplýsingar vísvitandi, og því spyr ég: Vissi hæstv. ráðherra ekki betur?