Umræða um bréf forsætisráðuneytis til Alþingis

Mánudaginn 17. nóvember 2003, kl. 15:57:20 (1714)

2003-11-17 15:57:20# 130. lþ. 28.93 fundur 156#B umræða um bréf forsætisráðuneytis til Alþingis# (um fundarstjórn), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 130. lþ.

[15:57]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég vil gera athugasemdir við fundarstjórn forseta eins og henni vatt fram við upphaf þingfundar í dag. Hv. þm. Samf., Helgi Hjörvar, kvaddi sér hljóðs um störf þingsins vegna þess að hann vildi ræða umdeilanlegt bréf hæstv. forsrh. til þingsins og hv. þm. gaf þær skýringar á því að hann kysi þetta form af því að hann vildi gefa öðrum þingmönnum í fjárln. og í þinginu færi á því að ræða málið líka.

Hæstv. forseti sagði þá af stóli að hann teldi að þessi umræða ætti fremur heima undir 1. lið dagskrárinnar, þ.e. óundirbúnum fyrirspurnum, og það kom fram síðar í umræðunni að hæstv. forsrh. sagði að hann mundi geyma sér að svara hv. þingmanni þangað til að þeim lið kæmi. Herra forseti. Ég lít svo á að með þessum ummælum sínum hafi hæstv. forseti verið að kalla eftir því að umræðan yrði flutt inn í þann lið. Og hv. þm. Helgi Hjörvar varð við því og bar fram fyrirspurn nákvæmlega um þetta undir liðnum. Þegar kom síðan að þessum lið gerðist það að hæstv. forseti veitti hv. þm. Helga Hjörvar ekki færi á að taka til máls og mæla fyrir þeirri fyrirspurn sinni.

Herra forseti. Ég er ákaflega ósáttur við þetta og ég mótmæli harðlega fyrir hönd Samf. Ég verð að segja að það er í hæsta máta óþægilegt að sjá samspil framkvæmdarvaldsins og hæstv. forseta við að skjóta út af borðinu óþægilegri spurningu eins og þeirri sem hv. þm. bar fram. Þessu vil ég mótmæla og ég vona að þetta endurtaki sig ekki. Þetta voru bolabrögð að mínu viti.