Umræða um bréf forsætisráðuneytis til Alþingis

Mánudaginn 17. nóvember 2003, kl. 16:01:39 (1717)

2003-11-17 16:01:39# 130. lþ. 28.93 fundur 156#B umræða um bréf forsætisráðuneytis til Alþingis# (um fundarstjórn), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 130. lþ.

[16:01]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Það sjónarmið sem forseti ber fram á rétt á sér. Mér finnst það alveg vera meira en einnar messu virði að ræða það. En það er hins vegar ekki hægt fyrir hæstv. forseta að færa þau rök ein fyrir þessari túlkun sinni á lögunum að honum finnist hitt og þetta viðeigandi. Hann verður að fá samþykki fyrir vinnubrögðum af þessu tagi, ef hann ætlar að halda þeim áfram í framtíðinni, með samræðum við þingflokka, ekki bara stjórnarliðsins heldur stjórnarandstöðunnar. Það er ákaflega mikilvægt að það sé sátt um svona túlkun.

Hæstv. forseti getur ekki bara staðið upp og sagt að hitt og þetta vilji hann ekki að sé gert vegna þess að það sé ekki viðeigandi. Spurningin snýst bara um eitt: Hver er réttur þingsins, hver er réttur þingmannsins?

Herra forseti. Ég tel að þó að við getum hugsanlega komið okkur saman um ákveðnar hefðir hér bæði með samræðum og með því hvernig vinnulag þróast þá er ekki hægt að horfa fram hjá því að hv. þm. Helgi Hjörvar var í fullum rétti samkvæmt þingsköpum til þess að ræða hér fyrr í dag ákveðið mál undir liðnum Athugasemdir um störf þingsins.

Nú vil ég rifja það upp, af því að hæstv. forseti hefur margt gott lagt til vinnubragða í þessu þingi, að það var einmitt herra forseti sem nú situr í stól sem örvaði og ýtti undir að sá liður væri notaður hér til þess að koma af stað skoðanaskiptum um einstök mál milli þingmanna og hæstv. ráðherra, mál sem hugsanlega eru ekki það stór að þau ætti að taka til almennrar umræðu í utandagskrárumræðum.

Hv. þm. Helgi Hjörvar gerði hins vegar ákaflega skilmerkilega grein fyrir því af hverju hann kaus að fara þessa leið. Hv. þm. á sæti í fjárln. Þar hefur málið ítrekað komið til umræðu. Hv. þm. upplýsti að það ætti að taka það mál til umræðu í nefndinni innan einhverra daga. Það var ljóst að hér í salnum eru menn og konur sem sitja í hv. fjárln. og vildu koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Þess vegna var lýðræðislegt af hv. þm., fullkomlega eðlilegt frá sjónarhóli þingskapa og réttlátt að hann gerði nákvæmlega þetta.

Ég vil segja, herra forseti, að ég get fallist á að það sjónarmið sem hér er flutt af hæstv. forseta eigi rétt á sér. En hins vegar er ekki hægt að standa hér upp og kveða upp slíkan úrskurð um vinnubrögð, eins og hæstv. forseti gerði, án þess að ræða það töluvert vel við þingflokkana sem mynda saman þetta þing.