Umræða um bréf forsætisráðuneytis til Alþingis

Mánudaginn 17. nóvember 2003, kl. 16:05:16 (1719)

2003-11-17 16:05:16# 130. lþ. 28.93 fundur 156#B umræða um bréf forsætisráðuneytis til Alþingis# (um fundarstjórn), LB
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 130. lþ.

[16:05]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Í þeirri umræðu sem hér fór fram áðan kom fram í svari hæstv. forsrh. að reikna mátti með því að fyrirspurn hv. þm. Helga Hjörvar kæmi á dagskrá. Það var ofur eðlilegt að hv. þm. mundi hefja þessa umræðu hér á þann hátt sem hann gerði vegna þess að þetta mál lýtur hvort tveggja að þinginu og forustu þess og framkvæmdarvaldinu. Það bréf sem þinginu var sent var niðurlæging fyrir þingið og þau viðbrögð sem forusta þingsins sýnir (Forseti hringir.) á hinu háa Alþingi, virðulegi forseti ...

(Forseti (HBl): Hv. þm. hefur orðið um fundarstjórn forseta en ekki til að fara í efnislegar umræður um þetta mál. Ég vil biðja hv. þm. sem er vel að sér í lögum að fylgja þingsköpum í þessu efni svo að ekki þurfi að koma til óþægilegra orðaskipta okkar á milli.)

Virðulegi forseti. Ég nefndi það í ræðu minni --- af því að hæstv. forseti hefur gaman af því að trufla þingmenn --- ég nefndi það í ræðu minni að þingheimur skildi það þannig að fyrirspurn hv. þm. kæmi hér á dagskrá eftir viðbrögð hæstv. forsrh. Þess vegna erum við hér að ræða fundarstjórn forseta alveg eins og hér hefur verið gert. En niðurstaðan er sú að bréfið er niðurlæging fyrir þingið og viðbrögð forustu þingsins er niðurlæging fyrir þingið.