Staða nýsköpunar á Íslandi

Mánudaginn 17. nóvember 2003, kl. 16:17:01 (1724)

2003-11-17 16:17:01# 130. lþ. 28.94 fundur 157#B staða nýsköpunar á Íslandi# (umræður utan dagskrár), viðskrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 130. lþ.

[16:17]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Það er rétt að halda því til haga að Ísland er meðal efstu þjóða í árlegu mati World Economic Forum í samkeppnishæfni þjóða. Ísland hafnar í 8. sæti af 102 þjóðum á lista yfir samkeppnisvísitölu hagvaxtar í ár og hefur hækkað um fjögur sæti frá því í fyrra. Skýringin á hækkuninni liggur fyrst og fremst í bættum efnahagsskilyrðum sem skila Íslandi 16. sæti samanborið við 24. sæti árið 2002.

Því er ekki að leyna að niðurstöður World Economic Forum benda til þess að nýsköpun sé veikasti þátturinn í samkeppnishæfni Íslands. Þar lendum við í 21. sæti sem er svipað og síðustu tvö ár. Þessi veika staða Íslands í nýsköpun verður e.t.v. enn ljósari þegar hún er borin saman við allgóða stöðu okkar í vísindarannsóknum. Þrátt fyrir að þessi niðurstaða veki viss vonbrigði kemur hún ekki sérstaklega á óvart. Hún endurspeglar ákveðinn veikleika í grunngerð atvinnulífsins sem mér er fulljós enda hefur iðnrn. um skeið unnið kerfisbundið að því að bæta þessa stöðu. Iðnrn. hefur lagt sig eftir því að skapa frjóan jarðveg fyrir nýsköpun með því að byggja upp öflugt stuðningsumhverfi og renna traustum stoðum undir fjármögnun. Þetta kemur skýrt fram í nýskipan opinberrar aðkomu að stuðningi við vísindarannsóknir, tækniþróun og nýsköpun.

Með stofnun vísinda- og tækniráðs fyrr á þessu ári var stigið stórt skref í þá átt að samhæfa stefnu hins opinbera á sviði vísinda, tækni og nýsköpunar og tengja hana betur þeirri rannsókna- og þróunarstarfsemi sem fram fer í atvinnulífinu. Hluti af þessari mynd eru annars vegar lög um opinberan stuðning við vísindarannsóknir sem heyra undir menntmrh. og hins vegar lög um opinberan stuðning við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins sem heyrir undir iðnrh. Markmiðið með síðarnefndu lögunum snýr beint að því sem er umræðuefni okkar hér, að efla nýsköpun og samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs með því að byggja upp innviði og tæknilega getu fyrirtækja og frumkvöðla, m.a. til að takast á við framsæknar rannsóknir og tækniþróun.

Til þess að markmiðið náist hefur verið stofnuð nýsköpunarmiðstöð og svokölluðum Tækniþróunarsjóði verið komið á fót. Sjóðurinn tekur til starfa um næstu áramót og gert er ráð fyrir 200 millj. kr. fjárveitingu til hans í fjárlagafrv. 2004. Áætlað er að framlög til sjóðsins muni aukast á næstu fjórum árum og verði orðin 500 millj. kr. árið 2007. Impra nýsköpunarmiðstöð er rekin á vegum Iðntæknistofnunar. Henni er fyrst og fremst ætlað að sinna litlum og meðalstórum fyrirtækjum og mun þjóna öllum atvinnugreinum, ekki bara hefðbundnum iðnaði.

Hlutverk nýsköpunarmiðstöðvarinnar er að vinna að nýsköpun og tækniþróun í samræmi við lögin um opinberan stuðning við tækniþróun og nýsköpun og áherslu vísinda- og tækniráðs á hverjum tíma. Impra rekur m.a. frumkvöðlasetur til stuðnings frumkvöðlum og framgangi nýrra hugmynda og er miðstöð upplýsinga og leiðsagna fyrir frumkvöðla og lítil og meðalstór fyrirtæki á Íslandi.

Tilkoma Tækniþróunarsjóðs er veigamesta umbótin sem hrint hefur verið í framkvæmd til að treysta undirstöður nýsköpunar hér á landi. Sjóðnum er ætlað að gegna mikilvægu hlutverki við að brúa nýsköpunargjána svonefndu. En eins og flestum er sjálfsagt kunnugt hefur mjög lítið fé verið tiltækt til tækniþróunar og nýsköpunar. Að lokinni rannsóknarvinnu hefur enga sérstaka fyrirgreiðslu verið að fá til að fullþróa rannsóknaniðurstöður og gera þær aðgengilegar fyrir framtaksfjárfesta. Efnahagslegur ávinningur af rannsóknastarfsemi hefur því orðið minni en efni hafa staðið til og margar góðar viðskiptahugmyndir hefur dagað uppi í nýsköpunargjánni svokölluðu. Þetta er alþjóðlegt vandamál og ekki einskorðað við Ísland.

Við sjáum fram á góða samfellu í stuðningsumhverfi hins opinbera á grunni laga um opinberan stuðning við vísindarannsóknir. Rannsóknasjóður mun annast fjármögnun vísindarannsókna, bæði grunnrannsókna og hagnýtra rannsókna. Tækniþróunarsjóðnum er svo ætlað að stuðla að fullþróun viðskiptahugmynda og umbreytingu vísindalegra niðurstaðna í arðbærar vörur og Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins er þriðji hlekkurinn í þessari keðju, framtaksfjárfestir sem opnar nýsköpuninni leið inn á almennan markað.