Staða nýsköpunar á Íslandi

Mánudaginn 17. nóvember 2003, kl. 16:22:18 (1725)

2003-11-17 16:22:18# 130. lþ. 28.94 fundur 157#B staða nýsköpunar á Íslandi# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 130. lþ.

[16:22]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er þarft að taka upp málefni nýsköpunar í atvinnulífinu. Það mætti gera oftar og í ítarlegra umræðuformi. Það eru til ýmsar mælingar á því hvernig þjóðir standa að vígi gagnvart nýsköpun. Má vitna, til viðbótar þeirri sem hér hefur verið gerð að umtalsefni, sérstaklega til þess frumkvæðis sem Háskólinn í Reykjavík hefur haft að því að kanna stöðu Íslands í samstarfi við aðra erlenda aðila þar sem reynt hefur verið að kortleggja hugmyndaauðgi og frumkvæði einstaklinga og fyrirtækja. Þar kemur í ljós að Ísland stendur nokkuð vel að vígi hvað það snertir að hér eru margar viðskiptahugmyndir í gangi. Hins vegar er veiki hlekkurinn í flestum þeim tilvikum sá að fjármögnun og eftirfylgni er mjög erfið.

Ég minni líka á till. til þál. sem rædd var á Alþingi á dögunum og er flutt af þingflokki Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs um aðgerðir til stuðnings atvinnurekstri í smáum og meðalstórum fyrirtækjum. Um þá tillögu varð ágæt umræða á dögunum. Þar ræður ekki síst sú staðreynd að fé til nýsköpunar er af afar skornum skammti og er minna nú en verið hefur um árabil af þeirri einföldu ástæðu að fé Nýsköpunarsjóðs er allt orðið bundið og eignarhaldsfélög eða fjárfestingarfélög landshlutanna eru sömuleiðis hætt að fá þau tímabundnu framlög sem til þeirra runnu. Ástandið er einfaldlega þannig í dag að það er afar lítið fé á lausu til nýrra nýsköpunarverkefna. Það hlýtur að teljast mjög bagalegt. Það skortir sem sagt ekki hugmyndir en aðgangur að fjármagni og stuðningur af því tagi er af afar skornum skammti.

Það er mikið rætt um útrás íslenskra fyrirtækja á erlenda markaði um þessar mundir. Það er gott ef þar verða á ferðinni arðbær verkefni sem skila fjármunum hingað heim þótt síðar verði. Hitt er annað og öllu verra ef á sama tíma er meira og minna lok, lok og læs og allt í stáli þegar kemur að því að gera hugmyndir að veruleika í nýsköpun og þróun atvinnulífs innan lands. Það eru auðvitað ekki aðstæður sem kunna góðri lukku að stýra, herra forseti.