Staða nýsköpunar á Íslandi

Mánudaginn 17. nóvember 2003, kl. 16:29:51 (1728)

2003-11-17 16:29:51# 130. lþ. 28.94 fundur 157#B staða nýsköpunar á Íslandi# (umræður utan dagskrár), JGunn
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 130. lþ.

[16:29]

Jón Gunnarsson:

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Ásgeiri Friðgeirssyni fyrir að vekja athygli á stöðu nýsköpunar á Íslandi. Það er öllum ljóst sem starfað hafa í frumkvöðlaumhverfi og tekið þátt í nýsköpun og áhættufjárfestingu að áhættufé er af ákaflega skornum skammti eins og staðan er. Auðvitað þarf alltaf að velta fyrir sér hvernig beri að styðja við bakið á frumkvöðlum og með hvaða hætti opinber stuðningur eigi að koma að viðskiptahugmyndum. Að mínu viti er affarasælast ef okkur tekst að styrkja frumkvöðla í gerð viðskiptaáætlana með því að veita aukið fé til atvinnuþróunar- og eignarhaldsfélaga í landshlutunum þannig að þau geti aðstoðað frumkvöðla fyrstu skrefin.

Í umræðunni í dag hafa menn minnst á nýsköpunargjána. Það er að mörgu leyti skemmtilegt myndmál vegna þess að við sem höfum starfað í þessu umhverfi vitum að allt of oft er opinber stuðningur til að byggja brú yfir þessa miklu gjá of lítill og stendur í of skamman tíma. Ef við höldum áfram þessu myndmáli þá stendur frumkvöðullinn í raun á brúarsporðinum þegar búið er að byggja brúna yfir hálfa gjána, kraftur hans er þrotinn, fé hans þrotið og hann fær ekki opinberan stuðning lengur. Þar hefur opinberu fé í raun verið sóað í að byggja hálfa brú. Við þurfum og hljótum að velta fyrir okkur með hvaða hætti ríkisvaldið og aðilar fjármálamarkaðarins koma að því að styðja við frumkvöðla. Ríkisvaldið hlýtur og á að mínu viti að hafa forgöngu í því máli.