Staða nýsköpunar á Íslandi

Mánudaginn 17. nóvember 2003, kl. 16:31:51 (1729)

2003-11-17 16:31:51# 130. lþ. 28.94 fundur 157#B staða nýsköpunar á Íslandi# (umræður utan dagskrár), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 130. lþ.

[16:31]

Hjálmar Árnason:

Hæstv. forseti. Ég hygg að ekki sé mikill ágreiningur um það í þingsalnum að nýsköpun er eitt það mikilvægasta sem við sinnum hér í okkar störfum, mikilvæg fyrir þjóðfélag okkar og framtíðarþróun. Mér finnst hins vegar ýmsir hv. þm. hafa dregið fulldökka mynd af því ástandi sem hér er, ekki síst ef haft er í huga að það eru ekki mörg ár síðan frumframleiðsla var meginkjarninn í atvinnulífi okkar. Á síðustu 10--20 árum hafa orðið hér stórkostlegar framfarir og nægir að benda á lyfjaiðnaðinn, á það sem gerst hefur í kvikmyndum, í tölvubransanum og ýmsum tæknigreinum og svo má halda áfram. Það hefur með öðrum orðum afskaplega mikið gerst á tiltölulega skömmum tíma. En betur má ef duga skal og ég hygg að flestir séu sammála um það, eins og fram hefur komið í umræðunni, að það er kannski fyrst og fremst skortur á aðgengi að þolinmóðu fjármagni og úr því þarf að bæta. En það má líka draga það fram, hæstv. forseti, að skattumhverfi nýsprotafyrirtækja er e.t.v. ekki nógu hagstætt. Það kostar tugi þúsunda ef ekki hundruð þúsunda að stofna nýsprotafyrirtæki með ýmsum gjöldum og álögum. Að þessu þarf að hyggja.

Mér finnst hins vegar líka of mikið einblínt á það að ríkið eitt og sér eigi að koma fram með hið þolinmóða fjármagn. Minnstur hluti af efnahagsstærðum okkar fer í gegnum ríkissjóð. Hér eru stór og öflug fyrirtæki. Hér eru að verða til efnaðir einstaklingar. Af hverju ekki að leita á náðir þeirra, að ég tali nú ekki um lífeyrissjóðina sem ráða yfir mestu fjármagni í efnahagslífi okkar? Það er þjóðfélagið allt sem þarf að taka höndum saman um þetta. Og ef skattbreytingar þarf til, eigum við auðvitað að ganga í það verk.

En ég legg áherslu á það að á síðustu 20 árum hefur óskaplega mikið gerst hér á sviði nýsköpunar. Það má tala um byltingu á því sviði og vonandi að það haldi áfram.